Öruggt hjá KA í fyrsta úrslitaleik karla

Karlalið KA í blaki fetaði í dag í fótspor kvennaliðsins með því að vinna fyrsta úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. KA-strákarnir fengu Reykjavíkur-Þróttara í heimsókn og unnu býsna þægilegan 3:0 sigur – 25/17, 25/19, 25/17. Kvennaliðið sigraði Völsung í gær, einnig 3:0.
KA varð bikarmeistari bæði í karla- og kvennaflokki í vetur, bæði liðin urðu deildarmeistarar í vor og miðað við fyrstu úrslitaleikina verður KA liðin bæði að teljast mjög sigurstrangleg í lokasprettinum um Íslandsmeistaratitilinn.
Annar leikur KA og Þróttar í karlaflokki verður í Laugardalshöll fimmtudag 17. apríl, og sá þriðji í KA-heimilinu miðvikudagskvöldið 23. apríl.
Komi til fjórða leiks verður hann í Laugardalshöll laugardaginn 26. apríl og þurfi liðin að mætast í fimmta sinn til að knýja fram úrslit verður sú viðureign í KA-heimilinu þriðjudagskvöldið 29. apríl.