Fara í efni
Íþróttir

Kvennalið KA fór líka í bikarúrslit

KA-liðið eftir magnaðan sigur á Aftureldingu í kvöld. Mynd af Facebook síðu KA.

Kvennalið KA sigraði Aftureldingu 3:1 í undanúrslitum bikarkeppninnar í blaki í kvöld og KA leikur því til úrslita á morgun bæði í karla- og kvennaflokki.

KA og Afturelding mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar í fyrra og þar höfðu Mosfellingar betur, 3:0. KA-stelpurnar hefndu því sannarlega fyrir það tap í kvöld!

Liðin buðu upp á hörkuskemmtilegan leik í kvöld en sveiflukenndan. Allar hrinurnar voru spennandi; Afturelding vann þá fyrstu 25:21 en KA næstu þrjár: fyrst 25:21 og næstu tvær báðar eftir upphækkun, 26:24 og 28:26.

VIÐBÓT – HK vann í kvöld Álftanes 3:0 í hinni viðureign undanúrslitanna, 25:18, 25:19, 25:20.

Úrslitaleikirnir á morgun verða báðir í beinni útsendingu á RÚV.

  • 13:00 KA - Þróttur R. – úrslitaleikur karla
  • 15:30 KA - HK – úrslitaleikur kvenna.