Fara í efni
Íþróttir

KA-strákarnir sækja Skagamenn heim í dag

Viðar Örn Kjartansson að komast í færi í fyrri leiknum gegn ÍA í sumar en Árni Marinó Einarsson markvörður kom í veg fyrir mark. Viðar Örn hefur verið í stuði undanfarið og gerði tvö mörk gegn Breiðabliki í síðustu umferð. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sækja Akurnesinga heim í dag í lokaumferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, fyrir skiptingu hennar í tvennt. Leikurinn hefst klukkan 14.00.

KA er í sjöunda sæti, kemst ekki ofar og leikur því í neðri hluta deildarinnar á lokakaflanum annað árið í röð. Í dag fæst úr því skorið hvort KA verður í sjöunda eða áttunda sæti að hinum hefðbundnu 22 umferðum loknum; liðið er með 27 stig og Fram, sem tekur á móti FH, er með 26. Geri KA jafntefli eða tapi á Skaganum fer Fram því upp í sjöunda sæti ef liðið nær að leggja FH að velli.

Fimm leikir eru í framhaldskeppninni og liðin sem verða í sjöunda og áttunda sæti fá bæði þrjá heimaleiki. Í stóra samhenginu skiptir því ekki öllu máli hvernig fer í dag, þótt vitaskuld sé skemmtilegra að vera eins ofarlega og kostur er, mál málanna í augnablikinu er að allir haldist heilir og verði klárir í slaginn fyrir mikilvægasta leik sumarsins – bikarúrslitaleikinn gegn Víkingi á laugardaginn kemur.

Skagamenn eru í fimmta sæti sem stendur en geta náð fjórða sæti fyrir lokabaráttuna með sigri í dag, svo fremi FH geri jafntefli eða tapi fyrir Fram.