KA-menn spyrntu sér af botninum með sigri
KA-menn fóru úr fallsæti efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildarinnar, með sigri á HK í KA-heimilinu í gærkvöldi. Einu marki munaði í lokin, 35:34. Eftir tapið er HK neðst í deildinni.
Leikurinn var hnífjafn fyrsta korterið en eftir það náði KA þriggja marka forystu, gestirnir minkuðu muninn reyndar niður í eitt mark aftur en KA-strákarnir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.
KA byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og náði fljótlega fimm marka forskoti, 18:13, og voru í þægilegri stöðu lengi vel, en HK-ingar sýndu klærnar og náðu að jafna, 25:25, þegar 12 mín. voru eftir. KA-menn spýttu þá í lófana og komust fjórum mörkum yfir en hristu gestina þó ekki almennilega af sér fyrr en í blálokin. Dagur Árni Heimisson, sem fór hamförum í sókninni – gerði 13 mörk úr 14 skotum og átti að auki fjórar stoðsendingar – tryggði sigurinn með marki þegar 17 sekúndur voru eftir – kom KA þá í 35:33. HK gerði síðasta markið þremur sek. fyrir leikslok.
Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 13, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 10 (2 víti), Kamil Pedryc 4, Logi Gautason 3, Patrekur Stefánsson 3, Ott Varik 2.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 14 (35%).
Mörk HK: Sigurður Jefferson Guarino 9, Andri Þór Helgason 8, Hjörtur Ingi Halldórsson 4, Ágúst Guðmundsson 3, Leó Snær Pétursson 3, Kári Tómas Hauksson 3, Aron Dagur Pálsson 3, Haukur Ingi Hauksson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 7, Róbert Örn Karlsson 1.
Nicolai Horntvedt Kristensen stóð fyrir sínu í marki KA í gærkvöldi og varði 14 skot. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson