Handbolti, fótbolti og íshokkí á dagskrá í dag
Þrjú af íþróttaliðum bæjarins verða í eldlínunni í dag.
- KA/Þór tekur á móti liði Selfoss í Olís deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Leikurinn hefst klukkan 15.00 í KA-heimilinu.
Liðin eru bæði með tvö stig að loknum þremur leikjum. KA/Þór hefur unnið Hauka en tapað fyrir ÍBV og Stjörnunni.
- SA Víkingar taka á móti Skautafélagi Reykjavíkur í Hertz deildinni, Íslandsmóti karla í íshokkí, í Skautahöllinni. Leikurinn hefst kl. 16:45.
Liðin mættust í Laugardal um síðustu helgi í hörkuleik þar sem SR hafði betur, 4:2. SA vann hins vegar Fjölni örugglega, 7:1, í fyrsta leik tímabilsins.
- Karlalið KA sækir Víking heim í Reykjavík í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta, Bestu deildinni. Þar verður flautað til leiks klukkan 17.00.
Liðin eru jöfn að stigum í 2. til 3. sæti deildarinnar, með 46 stig að loknum 24 leikjum. Víkingar teljast þó ofar vegna betri markatölu; þeir eru með 26 mörk í plús en KA 19.
KA og Víkingur eru bæði örugg með sæti í Evrópukeppni á næsta ári þannig að nú stendur baráttan einungis um hvort liðið verður í 2. sæti deildarinnar og með sigri í dag kæmu KA-menn sér í vænlega stöðu í þeirri baráttu. Eftir daginn á KA tvo leiki eftir, gegn Stjörnunni í Garðabæ og Val á heimavelli. Víkingur á eftir að mæta KR og nýkrýndum Íslandsmeisturum Breiðabliks.