Fara í efni
Íþróttir

Gerði ein mistök „en annars mjög ánægð“

Aldís Kara og þjálfari hennar, Darja Zajcenko eftir að Aldís skautaði í morgun. Skjáskot af youtube rás Alþjóða skautasambandsins.

„Það var svolítið stressandi að vera fyrst; smá skjálfti í fótunum til að byrja með en annars leið mér bara vel,“ sagði Aldís Kara Bergsdóttir við Akureyri.net, eftir að hún keppti í listhlaupi skautum á Evrópumóti í morgun, fyrst Íslendinga. Mótið fer fram í Tallinn í Eistlandi.

Keppendur gerðu skylduæfingar í morgun, stutt prógram eins og skautamenn kalla það. Aldís Kara var nálægt sínum besta árangri en komst ekki áfram. Hún varð í 34. sæti af 36 keppendum en 24 stigahæstu keppa í frjálsum æfingum á laugardag.  Aldís fékk einkunnina 42.23 en besti árangur hennar er 45.45.

Aldís gerði æfingarnar vel og var ánægð með frammistöðuna, fyrir utan ein mistök. „Ég er vonsvikin með að rétt missa af lendingunni eftir eitt stökkið og detta, en annars er ég mjög ánægð með árangurinn,“ sagði hún.

Einbeiting

„Ég reyndi að halda einbeitingu alveg frá byrjun, vildi passa að flýta mér ekki í gegnum æfingarnar og var ákveðin að þótt ég myndi gera mistök að láta það ekki hafa nein áhrif á mig, heldur gleyma þeim strax og halda bara áfram,“ sagði þessi 18 ára menntaskólastúlka í dag. Það tókst henni sannarlega; þessi einu mistök voru strax gleymd og hún lauk æfingunum með miklum sóma.

Nú er þetta merkilega skref að baki – að keppa fyrst Íslendinga á EM. Næst á dagskrá er Norðurlandamótið í Danmörku í lok þessa mánaðar og síðan Reykjavíkurleikarnir. Þar hyggst Aldís Kara reyna að ná lágmörkum fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Sofiu í Búlgaríu í lok mars.

Hér á Facebook síðu Aldísar má sjá fyrsta hluta æfinga hennar í morgun.

Aldís fyrst – bein útsending frá EM

Aldís nálægt sínu best – ólíklega áfram