Fara í efni
Íþróttir

Hvaða íþróttafólk skaraði fram úr í fyrra?

Íþróttafólk ársins 2020! Skautarinn Aldís Kara Bergsdóttir og Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Val á íþróttakarli og íþróttakonu Akureyrar 2021 verður tilkynnt á fimmtudaginn. Þetta er í 43. sinn sem íþróttafólk í bænum er heiðrað með þessum hætti; Gunnar Gíslason, handbolta- og fótboltamaður, úr KA varð fyrir valinu í fyrsta skiptið, árið 1979. Lengi vel var einn íþróttamaður heiðraður en frá árinu 2016 hafa bæði karl og kona verið kjörin.

Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Akureyrarbær standa fyrir kjörinu, jafnan er bæjarbúum boðið til athafnar en vegna aðstæðna verður ekki svo að þessu sinni.

Þeir 10 íþróttakarlar sem kosið var um:

  • Árni Bragi Eyjólfsson, KA – handbolti
  • Baldvin Þór Magnússon, UFA – millivegalengdahlaup
  • Brynjar Ingi Bjarnason, KA – knattspyrna
  • Gunnar Aðalgeir Arason, SA – íshokkí
  • Isak Stianson, SKA – skíðaganga
  • Izaar Arnar Þorsteinsson, Akri – bogfimi
  • Jóhann Gunnar Finnsson, FIMAK – hópfimleikar
  • Lárus Ingi Antonsson, GA – golf
  • Þorbergur Ingi Jónsson, UFA – fjallahlaup
  • Þorlákur Sigurðsson, Nökkva – siglingar

Þær 10 íþróttakonur sem kosið var um:

  • Aldís Kara Bergsdóttir, SA – listhlaup á skautum
  • Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA – golf
  • Anna María Alfreðsdóttir, Akri – bogfimi
  • Arna Sif Ásgrímsdóttir, Þór/KA – knattspyrna 
  • Karen María Sigurgeirsdóttir, Þór/KA – knattspyrna
  • Katla Björg Dagbjartsdóttir, SKA – alpagreinar á skíðum
  • Paula Del Olmo Gomez, KA – blak
  • Rakel Sara Elvarsdóttir, KA/Þór – handbolti
  • Rut Jónsdóttir, KA/Þór – handbolti
  • Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, UFA – millivegalengda- og langhlaup

Smellið hér til að sjá myndbönd þar sem íþróttafólkið er kynnt.

Kjör íþróttafólks Akureyrar fer þannig fram að aðildarfélög ÍBA tilnefna íþróttamenn úr sínum röðum og úr þeim hópi velur stjórn Afrekssjóðs Akureyrar 10 af hvoru kyni sem kosið erum. Það eru svo stjórn og framkvæmdastjóri ÍBA, frístundaráð Akureyrar, deildarstjóri íþróttadeildar og starfsmaður Íþróttasambands Íslands á Akureyri sem kjósa auk þess sem fjölmiðlar á Akureyri, sem fjalla um íþróttir, hafa rétt til þess að taka þátt.