Fara í efni
Íþróttir

Frjálsíþróttatímabilið komið á fullt skrið

Stefanía Daney Guðmundsóttir keppti í langstökki á HM fatlaðra sem fram fór í Japan í maí. Aðsend mynd.

Æfinga- og keppnistímabilið utannhúss í frjálsum íþróttum er komið á fullt hjá UFA eins og öðrum félögum. Keppendur frá UFA hafa verið að ná ágætum árangri eins og sjá má á samantektinni hér að neðan.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir náði 10. sæti í langstökki á HM fatlaðra sem fram fór í Kobe í Jaban um miðjan maí og var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Stefanía Daney stökk 4,94 metra, en keppnin í hennar flokki hefur sjaldan verið sterkari. Hún er á leið á Grand Prix mót sem fram fer í París 14.-16. júní og mun þar reyna að koma sér ofar á heimslistann til að öðlast þátttökurétt á Paralympics í París síðar á þessu ári. 

Elena Soffía Ómarsdóttir keppir að því að ná lágmarkinu í spjótkasti fyrir Evrópumeistaramót 18 ára og yngri og færist óðum nær. Hún hjó nálægt því á Vormóti ÍR í lok maí þar sem hún kastaði 44,31 metra, en lágmarkið er 46,5 metrar. Með kastinu á Vormóti ÍR vann hún sinn flokk og er kastið það næstlengsta í sögunni í hennar flokki. Næsta verkefni Elenu er RUB-23 mót UFA sem haldið verður á Þórsvellinum 11. júní. Mótið telst vera löglegt alþjóðlegt mót og því spennandi að sjá hvort hún nær lágmarkinu á heimavelli.


Elena Soffía Ómarsdóttir er efnilegur spjótkastari. Aðsend mynd. 

Nú hafa níu efnilegir iðkendur úr UFA náð lágmörkum í unglingalandslið FRÍ. Emelía Rán Eiðsdóttir bættist í þann hóp með risakasti upp á 43,14 metra í lok maí, sem er langt yfir lágmarkinu í landsliðið. Hún er mjög efnilegur kastari og verður spennandi að sjá hvað hún gerir á RUB-23 mótinu í næstu viku. Hún er þó enn of ung til að reyna við lágmörk fyrir EM U18, þarf að bíða í tvö ár enn eftir að reyna sig á þeim vettvangi.

Góður árangur UFA-fólks á EM í utanvegahlaupum

UFA átti þrjá fulltrúa á Evrópumeistaramótinu í utanvegahlaupum sem haldið var í Annecy í Frakklandi í byrjun mánaðarins. Brautin var 58 kílómetra löng með 3.500 metra hækkun. Þorbergur Ingi Jónsson náði frábærum árangri, kom fyrstur Íslendinga í mark í karlaflokki á tímanum 5:32:40 og var í 23. sæti í heildina. Halldór Hermann Jónsson varð í 54. sæti á tímanum 6:12:19 og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir í 44. sæti í kvennaflokki á tímanum 7:28:44. Íslenska kvennaliðið hafnaði í 6. sæti í landsliðakeppninni og karlaliðið í 11. sæti.


Íslensku þátttakendurnir á EM í utanvegahlaupum. Halldór Hermann Jónsson (UFA) er lengst til vinstri í fremri röð, Þorbergur Ingi Jónsson U(FA) lengst til hægri í fremri röð og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) þriðja frá hægri í aftari röð. Mynd: fri.is.

Æfir og nemur í Bandaríkjunum

Birnir Vagn Finnsson dvaldi síðastliðinn vetur við nám í Northern State-háskólanum í Bandaríkjunum. Birnir stóð sig vel í vetur og var valinn nýliði ársins hjá skólanum. Hann kórónaði góðan árangur á lokamóti sínu, NSIC T&F Outdoor Championship, þar sem hann keppti í tugþraut og náði öðru sæti eftir harða baráttu. Birnir fékk 6.516 stig fyrir þrautina sem tryggði honum þátttökurétt á Norðurlandamóti 20 ára og yngri í Reykjavík 15.-16. júní. Birnir er kominn heim og farinn að æfa og undirbúa sig fyrir Norðulandamótið sem er einmitt hans næsta verkefni.


Birnir Vagn Finnsson stóð sig vel vestanhafs í vetur og er núna á leið á Norðurlandamót 20 ára og yngri í tugþraut síðar í mánuðinum. Aðsend mynd