Fara í efni
Íþróttir

Fram á toppinn en KA er enn í níunda sæti

Patrekur Stefánsson hefur verið drjúgur í sóknarleik KA undanfarið í fjarveru Bjarna Ófeigs Valdimarssonar. Patrekur, sem hér í þann veginn að þruma að marki Fram í kvöld, gerði átta mörk í leiknum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði fyrir Fram á heimavelli í kvöld í Olísdeildinni í handbolta. Eftir að staðan var 18:16 fyrir Framara í hálfleik fögnuðu þeir þriggja marka sigri, 37:34, og sæti á toppi deildarinnar. KA-menn eru hins vegar í níunda sæti sem fyrr.

Leikurinn í KA-heimilinu var fjörugur og bráðskemmtilegur; sóknarleikurinn í fyrirrúmi. KA-menn byrjuðu að krafti og gerðu þrjú fyrstu mörkun en Framarar jöfnuðu 5:5 og fyrri hálfleikurinn var í járnum lengi vel en gestirnir komust tveimur mörkum fram úr áður en hálfleikurinn var úti.

Nicolai Horntvedt Kristensen varði 14 skot í kvöld, m.a. þetta vítakast Ívars Loga Styrmissonar (34) seint í fyrri hálfleik. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fjörið hélt áfram í seinni hálfleik, gestirnir skrefi á undan og munurinn eitt til tvö mörk framan af en Framarar komust fimm mörkum yfir  skömmu eftir miðjan hálfleikinn. Heimamenn lögðu ekki árar í bát þrátt fyrir mótlætið heldur gyrtu sig í brók, vel stemmdum stuðningsmönnum til mikillar gleði, og Patrekur Stefánsson jafnaði eftir hraðaupphlaup þegar fimm og hálf mín. var eftir, 33:33.

Þá tóku gestirnir af skarið á ný og gerðu fjögur mörk gegn einu á lokasprettinum.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 12 (1 víti), Patrekur Stefánsson 8, Dagur Árni Heimisson 6, Einar Birgir Stefánsson 3, Ott Varik 3, Arnór Ísak Haddsson 1, Logi Gautason 1, 

Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristen­sen 14 (1 víti) – 31,8%, Úlfar Örn Guðbjartarson 2 (28,%)

Átta efstu liðin eftir 22 umferðir komast í úrslitakeppnina. KA er nú í níunda sæti með 12 stig, tveimur minna en HK sem er í áttunda sætinu. Þar fyrir ofan eru ÍBV með 16 stig, sem á reyndar leik til góða, og Stjarnan með 18. KA á eftir að mæta öllum þremur liðunum.

KA á þessa leiki eftir:

  • HK - KA
  • KA - ÍBV
  • Stjarnan - KA
  • KA - FH
  • Fjölnir - KA

Öll tölfræði úr leiknum í kvöld

Staðan í deildinni