Flott fyrsta mark Mikaels en KA-menn klaufar
KA og HK gerðu 3:3 jafntefli í dag í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur en KA-menn voru klaufar að missa unnin leik niður í jafntefli því HK-ingar, sem voru einum færri allan seinni hálfleikinn, jöfnuðu á lokasekúndunum.
Þegar fjórar umferðir eru eftir er KA með 28 stig í áttunda sæti deildarinnar, næst efst liðanna í neðri hlutanum, en HK hefur 21 stig og er í 10. sæti, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.
Nýbakaðir bikarmeistarar KA byrjuðu vel og Dagur Ingi Valsson kom þeim yfir eftir rúmlega 20 mínútur. Christoffer Petersen markvörður HK varði skot Daníels Hafsteinssonar í stöng en boltinn hrökk til Dags Inga sem skoraði af stuttu færi.
_ _ _
MYND MEÐ BIKARINN
KA varð bikarmeistari á laugardaginn eins og öllum ætti að vera kunnugt. Fyrir leikinn í dag og í hálfleik bauðst stuðningsmönnum liðsins að taka mynd af sér með bikarinn glæsilega og margir gripu auðvitað tækifærið.
_ _ _
Viðsnúningur varð eftir að KA skoraði því þá tóku gestirnir völdin, sóttu af krafti og náðu forystu áður en Erlendur Eiríksson dómari flautaði fyrri hálfleikinn af.
Dagur Örn Fjeldsted jafnaði eftir hálftíma leik og Arnþór Ari Atlason kom HK yfir þegar tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum. Gestirnir fögnuðu að vonum en aðeins mínútu breyttist andrúmsloftið því dómarinn sýndi Atla Hrafna Andrasyni gula spjaldið öðru sinni í leiknum og hann hafði þar með lokið leik.
_ _ _
FYRSTA MARK MIKAELS BREKA
Mikael Breki Þórðarson, unglingalandsliðsmaðurinn efnilegi, var í kvöld í fyrsta skipti í byrjunarliði KA í Bestu deildinni og hélt upp á daginn með því skora fyrsta sinni. Markið var glæsilegt og markaskorarinn ungi fagnaði innilega eins og gefur að skilja.
Mikael Breki Þórðarson og Hallgrímur Mar Steingrímsson, leikja- og markahæsti leikmaður í sögu KA, eftir að Mikael skoraði í kvöld.
_ _ _
Mikael Breki Þórðarson jafnaði fyrir KA snemma í seinni hálfleik með glæsilegu marki; hann fékk boltann rétt utan vítateigs og sendi hann efst í hægra markhornið. Mikael Breki er aðeins 17 ára og þetta var fyrsta mark hans í Bestu deildinni.
KA náði forystu á ný þegar Ásgeir Sigurgeirsson skoraði með laglegum skalla eftir hornspyrnu Harley Willard og þá bjuggust án efa flestir við að draumur gestanna um stig væri nánast úti. Þeir lögðu þó ekki árar í bát og náðu að jafna í blálokin. HK fékk aukaspyrna stuttu fyrir utan vítateig og þegar boltinn var sendur inn á teig þar Atli Arnarson dauðafrír á markteignum og skoraði með skalla. Þar voru KA-menn afar illa á verði en markið var ekkert minna en HK-ingar áttu skilið og jafntefli var sanngjörn niðurstaða.