Fara í efni
Íþróttir

Bronsið rann stelpunum í Þór/KA úr greipum

Sandra María Jessen, markadrottning Bestu deildarinnar, í dauðafæri í leiknum gegn Víkingi í dag en Birta Guðlaugsdóttir markvörður bjargaði naumlega. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 1:0 fyrir Víkingi í dag í lokaumferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Greifavelli KA og þar með runnu bronsverðlaunin Stelpunum okkar úr greipum.

Þór/KA hefur verið í þriðja sæti efstu deildar Íslandsmótsins nánast í allt sumar, jafntefli hefði haldið liðinu þar en með sigrinum í dag skutust nýliðar Víkings upp fyrir Akureyrarliðið, sem endar í fjórða sæti.

Tilkynnt var rétt fyrir leik að leikmenn deildarinnar hefðu kosið Söndru Maríu Jessen, fyrirliða Þórs/KA, besta leikmann Íslandsmótsins og Þóroddur Hjaltalín, starfsmaður Knattspyrnusambands Íslands, afhenti Söndru þá Flugleiðahornið, verðlaunagripinn glæsilega sem sem nafnbótinni fylgir.

Birta Guðlaugsdóttir kastaði sér til vinstri og átti ekki nokkra möguleika á að verja vítaspyrnu Söndru Maríu Jessen en það varð henni og öðrum Víkingum til happs að boltinn fór í stöngina og aftur út í teig. 

Flugleiðahornið reyndist ekki sá lukkugripur sem áhorfendur vonuðust örugglega til því lið Þórs/KA lék ekki vel í dag, fékk þó góð færi til að skora, og Sandra María var heldur ekki á skotskónum frægu; hún skaut í stöng úr vítaspyrnu 10 mínútum fyrir leikslok og náði ekki að nýta dauðafæri aðeins þremur mín. síðar. Margrét Árnadóttir sendi þá boltann inn á teig á Söndru, hún hikaði andartak og missti stjórn á boltanum sem gerði það að verkum að Birta markvörður Víkings náði að henda sér fyrir skotið. Myndirnar hér að neðan er af því atviki.

Það eftirminnilegasta úr rólegum fyrri hálfleik er brot Birtu Guðlaugsdóttur, markvarðar Víkings, á Söndru Maríu þegar markadrottningin komst ein inn fyrir vörnina eftir góða sendingu Margrétar Árnadóttur. Tæpur hálftími var þá liðinn.

Birta óð út fyrir vítateig og braut á Söndru um leið og hún vippaði yfir markvörðinn. Skoski dómarinn, Jovan Subic, blés vitaskuld í flautuna en áminnti markvörðinn með gulu spjaldi í stað þess að teygja sig í rauða spjaldið og reka Birtu af velli eins og margir áttu von á. Skot Söndru var vissulega laust, varnarmaður sem var á hælum hennar náði boltanum og ekki er loku fyrir það skotið að yfirvöld dómaramála úrskurði sem svo að sá skoski hafi haft rétt fyrir sér. En tæpt var það ...

Víkingar voru betri í seinni hálfleik og Freyja Stef­áns­dótt­ir gerði eina mark leiksins með glæsilegu skoti þegar 10 mín. voru liðnar. Leikmenn Þórs/KA voru þá illa á verði.

Áður er vítaspyrnunnar getið og dauðafæris Söndru fljótlega eftir það. Þór/KA fékk eitt mjög gott færi að auki; Margrét Árnadóttir þrumaði rétt yfir markið skömmu fyrir leikslok.

Leikskýrslan

Lokastaðan