Fara í efni
Íþróttir

Bríet Fjóla: Ferming, flugferð og stórsigur

Bríet Fjóla Bjarnadóttir í leiknum gegn FH síðdegis í gær. Innfelda myndin var tekin í Akureyrarkirkju um morguninn.

Gærdagurinn var óvenjulegur hjá Bríeti Fjólu Bjarnadóttur, knattspyrnukonunni stórefnilegu hjá Þór/KA. Hún er aðeins 14 ára, náði þeim áfanga í janúar, og er því í hópi fermingarbarna þetta árið. Bríet fermdist í Akureyrarkirkju í gærmorgun, flaug til Reykjavíkur um tvöleytið og var í leikmannahópi Þórs/KA sem mætti FH í Hafnarfirði í Bestu deildinni síðdegis.

Bríet Fjóla var á meðal varamanna gegn FH en kom inná og lék síðustu mínúturnar. Dagurinn var því sérdeilis vel heppnaður; aðeins vantaði að hún næði að gefa sjálfri sér það í fermingargjöf að skora í leiknum!

Veislan fór fram í Hafnarfirði í dag, Akureyri á morgun, skrifaði Bjarni Freyr Guðmundsson, faðir Bríetar, á Instagram reikning sinn í gær!

Þetta var í þriðja skipti sem Bríet Fjóla kemur við sögu í Bestu deildinni. Hún lék síðasta kortérið gegn Val á Hlíðarenda í fyrstu umferðinni um daginn en fyrsti leikur þessa bráðefnilega leikmanns í deild þeirra bestu var 13. september í fyrra, þegar Bríet Fjóla var aðeins 13 ára. Þá hún kom inn á undir lokin í 3:2 sigri Þórs/KA á Breiðabliki á Þórsvellinum.

Bríet Fjóla skoraði í fyrsta sinn fyrir meistaraflokk í febrúar á þessu ári. Þór/KA sigraði þá ÍBV 7:0 í Lengjubikarkeppninni í Akraneshöllinni og hún gerði eitt mark.

Myndir sem Bjarni Freyr Guðmundsson, faðir Bríetar Fjólu, birti á Instagram í gær: ferming í Akureyrarkirkju – flugferð í vændum – stórsigur Þórs/KA staðreynd.