Fara í efni
Íþróttir

Bogfimifólk að fá bætta aðstöðu

Alfreð Birgisson var að brasa í því að gera aðstöðuna í Kaldbaksgötu 2 klára þegar Akureyri.net leit þar við í vikunni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Bogfimiæfingar eru hafnar á nýjum stað og tækifæri til að fjölga iðkendum. Enn má þó segja að um bráðabirgðalausn sé að ræða í aðstöðumálum bogfimifólks. Opið hús verður á laugardag kl. 13-16 þar sem gestum gefst kostur á að kynna sér bogfimiíþróttina og fá að prófa undir handleiðslu reyndra þjálfara.

Akureyri.net fjallaði um aðstöðuskort bogfimifólks um miðjan janúar. Þar kom fram að frá 1. apríl 2020 hafi inniaðstaða verið svo takmörkuð að iðkendum hafi fækkað úr 75 í innan við tíu og ekkert tækifæri til nýliðunar. Æfingar hafa farið fram í kjallara Íþróttahallarinnar í húsnæði sem samnýtt er með Skotfélagi Akureyrar.


Bogfimiaðstaða í bígerð. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Nú hefur birt til í aðstöðumálunum, að minnsta kosti til bráðabirgða, því bogfimiæfingar eru hafnar í norðurhluta hússins að Kaldbaksgötu 2, þar sem Blikk- og tækniþjónustan var til húsa áður. Eftir sjávarflóðin á Eyrinni haustið 2022 flutti fyrirtækið sig annað. Nú hefur Íþróttafélagið Akur tekið norðurhluta hússins á leigu.

Bogfimifólk með Alfreð Birgisson í broddi fylkingar hefur unnið að breytingum á húsnæðinu til að gera það klárt fyrir æfingar. Fyrsta æfingin var hjá yngri iðkendum í gær og hjá þeim eldri í dag. Tveir gámar eru hluti af aðstöðunni. Skotið er úr aðalrými hússins inn í gámana.

Ekki styrkt til að leigja af þriðja aðila

Framtíðin er þó ekki fulltryggð því til að byrja með var gerður leigusamningur fram á vorið. Alfreð bendir á að það sé stefna Akureyrarbæjar að leigja aðstöðu fyrir íþróttafélög bæjarins ekki af þriðja aðila og því þurfi Íþróttafélagið Akur að standa sjálft straum af kostnaði við húsnæðið.


Hluti af bættri stöðu félagsins er að geta tekið á móti hópum og kynnt íþróttina. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Eitt af því sem er til bóta með þessari nýju aðstöðu er að nú getur félagið náð sér í einhverjar tekjur með því að taka á móti hópum. Hluti af aðstöðunni hefur verið settur upp með það í huga og verður hægt að taka á móti allt að 20 manns í einu. Slíkir hóptímar voru einmitt mjög vinsælir þegar bogfimifólk hafði aðstöðu í Bogfimisetrinu í Sjafnarhúsinu. Þar hefur örvum ekki verið skotið frá því í upphafi heimsfaraldursins.

Opið hús verður í nýju aðstöðunni í Kaldbaksgötu 2 laugardaginn 7. október kl. 13-16. Bílastæði er við norðurenda hússins.