Bikarmeistararnir og Hallgrímur fyrir valinu
Bikarmeistarar KA í knattspyrnu eru lið ársins hjá félaginu og Hallgrímur Jónasson, þjálfari liðsins, var valinn þjálfari ársins hjá KA. Þetta var tilkynnt á 97 ára afmælisfögnuði í KA-heimilinu í gær.
„Hallgrímur er klókur þjálfari sem leggur leikinn vel upp, hann er einnig metnaðarfullur og duglegur þjálfari,“ segir um valið á vef KA í dag. Það var eftirtektarvert, segir þar, hversu vel Hallgrímur lagði upp sigurinn gegn Val í undanúrslitum og úrslitaleikinn sjálfan. „Fyrirfram átti KA að vera minna liðið í þeim viðureignum en þegar á hólminn var komið þá unnum við sanngjarna og mikilvæga sigra fyrir félagið. Hallgrímur náði þar með að feta í fótspor Guðjóns Þórðarsonar að vinna stóran titil í knattspyrnu karla.“
Bikarmeistarar KA í knattspyrnu eftir sigur á Víkingum í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli í september. Mynd: Skapti Hallgrímsson
KA varð Mjólkurbikarmeistari í fyrra, í fyrsta sinn í sögu félagsins þegar Víkingar voru lagðir að velli, 2:0, á Laugardalsvelli í september. „Með sigrinum þá verður KA í Evrópukeppni sumarið 2025 sem er gífurlega mikilvægt fyrir félagið,“ segir á vef félagsins. „Dagurinn var frábær í alla staði en Akureyringar fjölmenntu suður og áttum við stúkuna, slík var stemningin. Á leið sinni í úrslitaleikinn vann liðið Lengjudeildarlið ÍR og Bestudeildarlið Vestra, Fram og Vals. Leiðin var því alls ekki létt og er liðið vel að titilinum komið.“