Baldvin Þór: Frábær reynsla og mikilvæg
Baldvin Þór Magnússon hafnaði í 14. sæti í úrslitum í 3.000 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss í Belgrad í Serbíu í gær, eins og Akureyri.net greindi frá.
„Þetta er búin að vera frábær reynsla og mjög mikilvæg upp á framtíðina, að læra á hvernig þetta allt er og fá að upplifa þetta. Að fá að finna hvernig það er að komast í úrslit og svo að finna hvernig það er að keppa í úrslitum. Þetta var reynsla sem ég læri af,“ segir Baldvin Þór í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Undanúrslitin voru bara keppni lífs míns og svo er erfitt að koma til baka tveimur dögum seinna og reyna að gera það sama aftur. Þeir sem voru að keppa eru sterkari en ég og ná betri endurheimt eftir svona keppni, þeir geta keppt aftur tveimur dögum seinna. Ég var ekki með það í dag [í gær] enda var ég enn þá með fyrra hlaupið í löppunum,“ segir hann í blaðinu.
Smellið hér til að lesa tilvísunarfrétt á mbl.is