Bæði KA-liðin í blaki í undanúrslitum bikarsins

Lokasprettur bikarkeppninnar í blaki hefst í kvöld með leik KA og Aftureldingar í undanúrslitum karla. Kvennalið KA leikur einnig í undanúrslitum og mætir liði Aftureldingar – sá leikur er á morgun. Úrslitaleikirnir eru á dagskrá á laugardaginn. Löng hefð er fyrir því að þessir síðustu leikir bikarkeppninnar fari fram í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi.
Undanúrslitaleikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV2 og úrslitaleikirnir sjálfir í beinni á aðalrás RÚV.
- Útsending frá leik KA og Aftureldingar í kvöld hefst kl. 19:15. Þróttur og HK mætast í hinum undanúrslitaleiknum, útsending frá honum hefst kl. 16:45 í dag.
- Útsending frá leik kvennaliða KA og Aftureldingar á morgun hefst kl. 16:45 en frá hinni viðureigninni kl. 19:15. Mætast HK og Álftanes.
Zdravko Kamenov, fyrirliði KA, segir í viðtali við vefinn blakfrettir.is að liðið sé einbeitt og tilbúið fyrir komandi bikarhelgi. „Við erum einbeittir og fullir tilhlökkunar,“ segir hann og bætir við að það, að komast í undanúrslitin og góð frammistaða liðsins í síðustu tveimur leikjum veiti KA-mönnum sjálfstraust fyrir leikinn í kvöld.
Kvennalið KA sem mætir Aftureldingu í undanúrslitum bikarkeppninnar á morgun. Mynd af vef KA.
Fyrirliði kvennaliðs KA, Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, segir í viðtali við sama vef að stemningin í liðinu sé mjög góð. „Stemningin er rosalega góð hjá okkur,“ segir hún. „Þetta er að okkar mati skemmtilegasta helgi ársins, þannig mjög mikil eftirvænting og spenna meðal hópsins,“ segir Lovísa.
Hún segir að helstu styrkleikar mótherjans séu sérstaklega sterk vörn og hávörn, blokk eins og hún er kölluð á blakmáli. „Þetta hafa oft verið hörku leikir þegar við mætum Aftureldingu og oft erfitt að sjá fyrir um hver ber sigur úr býtum. En þær hafa mjög góða blokk sem hefur reynst okkur erfið, einnig eru þær mjög sterkar í vörn sem er gríðarlega góður eiginleiki að hafa inn í bikarinn,“ segir Lovísa.
Nánar hér á vefnum blakfrettir.is
Úrslitaleikur karla hefst kl. 13:00 á laugardaginn og úrslitaleikur kvennaliðanna efst kl. 15:30.
Vert er að geta þess að tvö stúlknalið KA leika til úrslita í bikarkeppninni í blaki á laugardag; U14 lið KA og Þróttar hefja leik kl. 10:30 og U16 lið KA og Völungs mætast í úrslitum kl. 18:00.
Úrslitaleikir U14 og U16 kvenna verða í beinni á youtube rás Blaksambands Íslands.