Fara í efni
Íþróttir

Anna María fjórða á EM í bogfimi – MYNDBAND

Anna María Alfreðsdóttir úr íþróttafélaginu Akri á Akureyri varð í fjórða sæti í keppni með trissuboga í flokki 21 árs og yngri á Evrópumótinu í bogfimi í Slóveníu í dag. Hún tapaði leiknum um bronsið naumlega, 147:143, fyrir Ipek Tomruk frá Tyrklandi.

Leikurinn var mjög jafn í upphafi, skv. upplýsingum frá Bogfimisambandi Íslands. Eftir fyrstu umferð var Anna María einu stigi á eftir þeirri tyrknesku, 29:28, báðar náðu þær fullkomnu skori, 30 stigum í næstu umferð og í þeirri þriðju náðu báðar 29 stigum. Staðan því 88:87 fyrir Tomruk þegar tvær umferðir voru eftir. Hún jók forskotið í þrjú stig í fjórðu umferðinni, fékk 29 skot en Anna María 27 og í fimmtu og síðustu umferð skutu báðar frábærlega Anna María fékk 29 stig en Tomruk 30.

Smellið hér til að horfa á leik Önnu Maríu og Ipek Tomruk um bronsverðlaunin.

Anna María sló fimm Íslandsmet á EM að því er segir á heimasíðu Bogfimisambandsins.

  • Íslandsmet í útsláttarkeppni trissuboga kvenna U21
  • Landsliðs Íslandsmet í undankeppni liða trissuboga kvenna U21 og sama met í Opnum flokki (fullorðinna)
  • Landsliðs Íslandsmet útsláttarkeppni liða trissuboga U21 og sama met í Opnum flokki (fullorðinna)