Æsispennandi leikur og sigur í afmælisgjöf
Kvennalið KA í blaki sigraði Völsung 3:2 í skemmtilegum og æsispennandi toppslag efstu deildar Íslandsmótsins, Unbrokendeildarinnar, á heimavelli í kvöld.
Í dag eru 97 ár síðan Knattspyrnufélag Akureyrar var stofnað þannig að blakstelpurnar færðu félaginu glæsilegan og mikilvægan sigur í afmælisgjöf. Lið Völsungs gat komist upp að KA með sigri en KA-stelpurnar tróna á toppnum sem fyrr.
KA byrjaði vel og vann fyrstu tvær hrinurnar, báðar 25:20. Gestirnir austan af Húsavík byruðu reyndar mun betur í fyrstu hrinu og höfðu forystuna þar til KA jafnaði 13:13 en þá tók heimaliðið völdin og vann býsna þægilegan sigur. KA-stelpurnar höfðu svo forystu alla aðra hrinuna og sigur í henni var aldrei í hættu.
Paula Del Olmo Gomez , til vinstri, og Auður Pétursdóttir með abragðs hávörn í kvöld.
KA þurfti að vinna eina hrinu enn til að tryggja sér sigur í leiknum en dæmið snerist heldur betur við í þeirri þriðju: lið Völsungs fór á kostum og vann mjög örugglega, 25:14. Jafnræði var með liðunum framan ef en þegar staðan var 10:10 skiptu Völsungar um gír og hreinlega stungu af.
Fjórða hrinan var hnífjöfn en Völsungur marði sigur, 27:25. Sú fimmta og síðasta var ekki síður jöfn en KA-stelpurnar unnu 16:14 eftir upphækkun og fögnuðu sætum afmælis-sigri innilega. Þær hafa nú fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar fyrir lokasprettinn.
Viðureign kvöldins var síðasti leikur þessara liða í 2. umferð deildarinnar. Sú þriðja og síðasta hefst um miðjan mánuðinn en KA-stelpurnar leika reyndar ekki næst fyrr en föstudaginn 31. janúar þegar þær sækja Völsung heim á Húsavík. KA fær svo Þrótt úr Fjarðabyggð í heimsókn, leikur við Aftureldingu í Mosfellsbæ, því næst er á dagskránni útileikur gegn Álftanesi og tveir síðustu leikirnir eru á heimavelli, gegn HK og Þrótti.
Haldið verður upp á afmælið í KA-heimilinu á sunnudaginn kl 17.00. Þar verða íþróttakarl og íþróttakona ársins hjá KA m.a. heiðruð.