Fara í efni
Fréttir

Vinna að orkuskiptum á Íslandi og í Kóreu

Grænafl skrifaði undir viljayfirlýsingu (MOU) við Korea Maritime Institute við hátíðlega athöfn í Busan í Kóreu í desember 2023. Kolbeinn Óttarsson Proppe ásamt þarlendum fulltrúum.

Fyrirtækið Grænafl vinnur að því að minni skip hætti að brenna olíu, eða dragi í það minnst mikið úr olíunotkun. Það gerir fyrirtækið með því að breyta bátunum þannig að í stað olíuvélanna sem nú eru í þeim komi búnaður sem gerir það að verkum að hægt verði að keyra þá 100% á rafmagni og í einhverjum tilfellum blendingsvélar. Samhliða þessu vinnur Grænafl að uppsetningu hleðslustöðva fyrir báta í höfnum.

  • Grænafl er eitt sex nýsköpunarverkefna sem DriftEA valdi í svokallaðan Hlunn og fá þau verkefni heildstæða aðstoð og ráðgjöf næstu 12 mánuði
  • Akureyri.net mun kynna umrædd verkefni á næstunni, eitt í viku hverri. Þegar hefur verið fjallað ítarlega verkefnið ÍBA 55+ 

  • DriftEA  er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar sem tók starfa á Akureyri í vetur
  • Alls fengu 14 verkefni inngöngu fyrr í vetur í nýsköpunarhraðal sem nefnist Slipptaka. Næsta skrefið að Slipptöku lokinni er Hlunnurinn sem er að sænskri fyrirmynd en DriftEA er í samstarfi við sænska frumkvöðlasetrið Sting

Kolbeinn Óttarsson Proppé, til vinstri, og Freyr Steinar Gunnlaugsson, eigendur Grænafls. Mynd: Sindri Swan

Grænafl er sprotafyrirtæki á Siglufirði sem stofnað var 2022. Eigendur þess  eru Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem jafnframt gegnir stöðu framkvæmdarstjóra, og Freyr Steinar Gunnlaugsson. Fyrirtækið er í samstarfi við innlend stórfyrirtæki eins og HS Orku og Eflu, en helstu samstarfsaðilarnir koma þó frá Suður-Kóreu, þar sem búnaðurinn er framleiddur. 


Um 20 manna sendinefnd frá Kóreu heimsótti Siglufjörð í fyrra og mældi m.a. upp þá báta sem ætlunin er að byrja á að breyta.

„Okkur hefur tekist að draga inn í verkefnið bæði stjórnvöld og fyrirtæki í Kóreu,“ segir Kolbeinn. „Það er okkur gríðarlega mikilvægt, því þannig náum við beinu sambandi við framleiðendur varðandi hönnun og þróun á búnaðinum. Þetta er ekki hilluvara og þar sem við erum í því að breyta bátum sem þegar eru í notkun, þarf að huga að ýmsu, ekki síst í frumgerðunum.“

Grænafl hefur skrifað undir viljayfirlýsingu (MOU) við stofnunina Korea Maritime Institute (KMI), en hún sinnir því sem við kemur sjávarútvegi þar í landi, m.a. stefnumótun fyrir stjórnvöld. Yfirlýsingin gengur út á að fara í orkuskipti í minni skipum á Íslandi, en einnig í Kóreu og það er því eftir miklu að slægjast fyrir Grænafl, enda kóreskur markaður mun stærri en sá íslenski.

Kolbeinn hefur kynnt verkefnið víða í Kóreu. Hér er hann á ráðstefnu á Jeju-eyju á síðasta ári.

„Við höfum einnig skrifað undir við fimm kóresk fyrirtæki um samstarf í verkefninu, en þau munu framleiða búnaðinn fyrir okkur. Samningagerð stendur nú yfir varðandi samstarf og réttindi Grænafls um þróun og notkun á þessari tækni til að stuðla að orkuskiptum; á Íslandi og í Kóreu en einnig á öðrum svæðum, t.d. Norðurlöndunum og innan ESB. Ég er einmitt á leiðinni til Kóreu í næsta mánuði þar sem skrifa á undir samninga við hátíðlega athöfn,“ segir Kolbeinn.

Samhliða samningagerð við Kóreu vinnur Grænafl að því að koma upp hleðslustöðvum í höfnum. Sú fyrsta verður í höfninni á Siglufirði, en verið er að vinna að umsókn um hana til bæjarins. HS Orka er samstarfsaðili Grænafls, en fyrirtækið hefur mikla reynslu í því að koma að uppsetningu hleðslustöðva. HS Orka hefur stutt við Grænafl og komið að viðræðum við samstarfsaðila í Kóreu.

Suður-kóreski hópurinn heimsótti m.a. Slippinn á Akureyri.

Grænafl er staðsett á Siglufirði, sem fyrr segir, en er í samstarfi við fyrirtæki á Akureyri. Þar má nefna starfsstöð Eflu og í haust var skrifað undir viljayfirlýsingu við Slippinn um mögulegt samstarf. „Við viljum vinna að atvinnuuppbbygingu á svæðinu. Við skoðuðum meðal annars það að flytja bátana til Kóreu og breyta þeim þar, en viljum stuðla að verðmætasköpun hér á svæðinu,“ segir Kolbeinn. „Aðilar eins og Slippurinn yrðu mikilvægur aðili að virðiskeðjunni og sjálfsagt að leita hófa þar, enda eru þeir í þessum bransa. Við munum í það minnsta ganga frá samningum við smiðju á næstu mánuðum, hver sem hún verður, þar sem við viljum fara í framkvæmdir næsta vetur.“

Gestirnir frá Suður-Kóreu skoða Oddverja, fyrsta bátinn sem verður breytt.