Skapa sterka ímynd og sérstöðu

- Komplíment er eitt sex nýsköpunarverkefna sem DriftEA valdi í svokallaðan Hlunn og fá þau verkefni heildstæða aðstoð og ráðgjöf næstu 12 mánuði
- Akureyri.net kynnir umrædd verkefni um þessar mundir, eitt í viku hverri. Grænafl var til umfjöllunar í síðustu viku en áður hafði verið fjallað ítarlega um verkefnið ÍBA 55+
- DriftEA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar sem tók starfa á Akureyri í vetur
- Alls fengu 14 verkefni inngöngu fyrr í vetur í nýsköpunarhraðal sem nefnist Slipptaka. Næsta skrefið að Slipptöku lokinni er Hlunnurinn sem er að sænskri fyrirmynd en DriftEA er í samstarfi við sænska frumkvöðlasetrið Sting
„Við munum fyrst um sinn einbeita okkur að því að lyfta undir með fyrirtækjum á svæðinu með verkefni sem sitja á hakanum. Þetta eru oft verkefni eins og uppfærsla vefsíðu og innihaldsrík efnissköpun fyrir samfélagsmiðla en einnig grafísk vinnsla efnis sem endurspeglar sérstöðu fyrirtækisins,“ segir Katrín Árnadóttir, sem stofnaði fyrirtækið ásamt Ingibjörgu Berglindi Guðmundsdóttur.
Katrín hefur áralanga reynslu af markaðsstarfi bæði sem forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá Háskólanum á Akureyri og sem samskiptafulltrúi Sjúkrahússins á Akureyri, og Ingibjörg Berglind – alltaf kölluð Begga – hefur starfað sem grafískur hönnuður og teiknari í fjöldamörg ár.
Begga stofnaði cave canem hönnunarstofu með eiginmanni sínum Finni Dúa Sigurðssyni árið 2018 og hefur átt farsælan feril í hönnun. Hún er menntaður tækniteiknari og grafískur hönnuður og hefur unnið fyrir fyrirtæki og stofnanir um allt land. Þá er Begga einnig teiknari sem gefur henni og Komplíment mikla sérstöðu á markaðnum auk þess sem hún hefur tekið að sér að vera stílisti fyrir auglýsingar.