Vélin frá Tenerife og Glasgow kemur í kvöld
![](/static/news/lg/tene-nota.jpg)
Ferðalangarnir sem flugu frá Tenerife í gær og gerðu ráð fyrir að lenda á Akureyrarflugvelli komast loks á leiðarenda í kvöld, sólarhring á eftir áætlun. Hvorki var hægt að lenda á Akureyri né Keflavík og var vélinni því snúið til Glasgow eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Einn farþeganna segir að vel hafi verið hugsað um hópinn og stemningin sé góð. Fólk reyni að gera gott úr öllu saman.
Tilkynnt var síðdegis að farið yrði í loftið í Glasgow kl. 20.00 í kvöld og lent á Akureyri um klukkan 22.00.
„Það hefur verið hugsað vel um okkur og mjög greiðlega gekk að koma öllum inn á hótel í gær. Það er ágætis stemming í hópnum, fólk greinilega að koma endurnært úr sólinni og var þolinmótt vegna tafarinnar í gær,“ sagði einn farþeganna við Akureyri.net í dag.
„Fólk var aðallega hissa á að ekki var reynt meira við lendingu á Íslandi en á sama tíma þakklátt fyrir að ekki sé verið að taka óþarfa áhættu. Það hefur verið góð upplýsingagjöf frá Heimsferðum en nú vill fólk fara að komast heim. “
Slæm bremsuskilyrði í Keflavík
Eins og fram kom í fréttinni í gærkvöldi gat vélin ekki lent á Akureyri vegna hvassviðris. Hermt var að aðstæður hefðu verið álíka í Keflavík en þrautreyndur flugstjóri sem Akureyri.net ræddi við í dag sagði vind ekki hafa verið vandamálið þar heldur hefði él skollið á og vegna frosts hefðu bremsuskilyrði skyndilega orðið mjög slæm. Jafnan tæki um 20 mínútur að koma brautinni í samt lag en flugstjórinn hefði augljóslega ákveðið að bíða ekki heldur halda áleiðis til Glasgow, sem var 2. varaflugvöllur vélarinnar, í stað þess að hringsóla yfir Reykjanesi. Honum væri ekki kunnugt um hvers vegna en öryggið væri alltaf sett á oddinn. Því mætti treysta.
Galvaskir ferðalangar ganga um borð í vél Neso á Tenerife í gærdag, væntanlega fullir tilhlökkunar að komast í „blíðviðrið“ heima á Akureyri ...
Tenerife í gær - Glasgow í dag - Akureyri í kvöld. Þá verður hægt að taka upp úr töskunum og jafnvel setja í vél ef einhver nennir!