Fara í efni
Fréttir

Veit hvað þarf til að ná tökum á nýju tungumáli

Icelandic With Bryndís (IWB) er nýstárleg og framsækin kennslulausn sem miðar að því að gera íslenskunám aðgengilegt og árangursríkt fyrir fjölbreyttan hóp nemenda, að sögn Bryndísar Rúnar Hansen, frumkvöðulsins sem stofnaði IWB.
 
Bryndís segir að með IWB sé komin ný og þörf leið til íslenskukennslu „með það að markmiði að efla samskiptahæfni innflytjenda og annarra erlendra nemenda sem hafa áhuga á tungumálinu. IWB leggur áherslu á sveigjanlega og árangursríka kennslu sem hentar íslenskunemendum á öllum stigum,“ segir Bryndís Rún við Akureyri.net.

 

  • IWB er eitt sex nýsköpunarverkefna sem DriftEA valdi í svokallaðan Hlunn og fá þau verkefni heildstæða aðstoð og ráðgjöf næstu 12 mánuði
  • Akureyri.net hefur kynnt umrædd verkefni undanfarið. Sea Thru var til umfjöllunar í síðustu viku en áður hafði verið fjallað um Quality Console,   Komplíment, Grænafl og verkefnið ÍBA 55+

  • DriftEA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar sem tók starfa á Akureyri í vetur
  • Alls fengu 14 verkefni inngöngu fyrr í vetur í nýsköpunarhraðal sem nefnist Slipptaka. Næsta skrefið að Slipptöku lokinni er Hlunnurinn sem er að sænskri fyrirmynd en DriftEA er í samstarfi við sænska frumkvöðlasetrið Sting

Frumkvöðullinn Bryndís Rún Hansen. Hún var um árabil afrekskona í sundi og bjó erlendis – í þremur löndum – í alls 12 ár. Mynd: Sindri Swan fyrir Drift.

Bryndís Rún Hansen hefur víðtæka reynslu af tungumálanámi og kennslu erlendra nemenda. Sem afreksíþróttakona í sundi var hún hluti af íslenska landsliðinu og keppti fyrir hönd Íslands í 15 ár. Vert er að nefna að hún hefur oftast kvenna verið heiðruð í árlegu kjöri besta íþróttafólks Akureyrar: var þrisvar kjörin íþróttamaður Akureyrar og einu sinni íþróttakona Akureyrar, eftir að kjörinu var kynjaskipt.

Bryndís bjó erlendis í samtals 12 ár þegar hún stundaði nám og keppti í sundi – þrjú ár í Noregi, þar sem hún lauk menntaskólanámi á sálfræðibraut, fimm ár í Bandaríkjunum, þar sem hún útskrifaðist með BS-gráðu í markaðsfræði frá Shidler College of Business (University of Hawai’i) og fjögur ár í Tyrklandi.

Hún segir að dvölin erlendis hafi krafist þess að hún tileinkaði sér mismunandi tungumál og það hafi veitt henni dýrmæta innsýn í hvað þarf til að ná góðum tökum á nýju tungumáli. Undanfarin fimm ár hefur Bryndís kennt íslensku í gegnum fjarfundabúnað og erlendir nemendur sem hún hefur leiðbeint skipta hundruðum. Þessi reynsla hefur veitt henni skýra sýn á hvaða aðferðir og úrræði skila mestum árangri í íslensku sem annað mál.

„Verkefnið er í örri þróun og verða námskeiðin byggð upp sem stafræn íslenskunámskeið með skýrum útskýringum, hljóð- og myndrænum leiðbeiningum og gagnvirkum æfingum,“ segir Bryndís. „ Framburður og hljóðfræði verða í forgrunni sem gefur nemendum mikilvægan grunn og eykur sjálfstraust þeirra í samskiptum. Námskeiðin veita nemendum aðgang að kennslu með öllum nauðsynlegum upplýsingum, útskýringum og æfingum, líkt og í einkakennslu, og munu því nemendur uppskera ávinning þess að sækja sér einkakennslu, án þess að borga einkakennslugjald eða vera bundin ákveðnum tímasetningum,“ segir hún. Námskeiðin séu hönnuð þannig að hver nemandi geti lært á sínum hraða, endurtekið efni eftir þörfum og valið sér námsumhverfi sem henti hverjum og einum.

Nemendur upplifi sig sem hluta af heild

Stór markhópur IWB er innflytjendur sem nú þegar getur verið talinn einangraður hópur og því er þörf á samfélagi sem styður og hvetur þá einstaklinga til að kynnast öðrum á líkri vegferð, segir Bryndís, hvort sem þau eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku eða að leitast við að bæta samskiptahæfni sína. „Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aukist verulega á síðustu árum og er líklegt að þetta hlutfall muni halda áfram að vaxa sem skapar aukna þörf fyrir aðgengilegri íslenskukennslu.“

Bryndís Rún kynnir IWB verkefnið á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri.

Bryndís segir að IWB muni því leggja áherslu á að skapa samfélag þar sem nemendur upplifi sig sem hluta af heild og geti æft hæfni sína í öruggu umhverfi. Þannig muni IWB skapa lifandi og hvetjandi samfélag þar sem fólk geti bætt færni sína, átt samskipti við aðra á sömu vegferð og öðlast sjálfstraust til að tala íslensku í daglegu lífi. „Með því að leggja áherslu á samfélagslega þátttöku og gagnvirka kennsluhætti mun verkefnið stuðla að því að nemendur finni sig sem hluta af stærra íslenskumælandi samfélagi.“

Mikilvægt að koma til móts við ungmenni

Það getur reynst fólki sem flytur til Íslands erfitt að læra íslensku, sérstaklega ef enskukunnátta þess er takmörkuð, en oft þarf fólk að tileinka sér ensku áður en það getur hafið íslenskunám, að sögn Bryndísar. Til þess að forðast þetta aukna flækjustig og til að brúa bilið milli mismunandi tungumála munu námskeið IWB innihalda fjölbreyttar þýðingar og skýringar á nokkrum tungumálum sem auðveldar þeim sem ekki tala ensku að tileinka sér íslensku á skilvirkari hátt, að hennar sögn.

„Það er einnig sýn IWB að börn og ungmenni Íslands séu framtíð tungumálsins og því mikilvægt að koma til móts við þau með auknum stuðningi og áhugahvetjandi efni,“ segir Bryndís Rún. „Það er skortur á markvissri íslenskukennslu fyrir börn og ungmenni sem alast ekki að öllu leyti upp í íslensku málumhverfi sem þurfa stuðning við íslenskunám sitt. IWB mun því þróa námskeið fyrir þennan hóp sem reynast áhugaverð og grípandi til að auka þekkingu og íslenskukunnáttu þeirra frá unga aldri.“

Mjög þakklát

Bryndís Rún segir að engin ein leið sé til sem henti öllum þegar kemur að tungumálakennslu en hjá IWB verði sameinaðar þær aðferðir sem hafi sýnt fram á mestan árangur í tungumálakennslu og þess vegna eigi námskeiðin eftir að henta breiðum hópi einstaklinga.

Á vefsíðu IWB verður nemendum gert kleift að velja námsleiðir sem henti þörfum og færni hvers og eins. „Vefsíðan verður skipulögð á þann hátt að hún höfði til mismunandi aldurshópa – litrík, sjónræn og leikjamiðuð fyrir yngri nemendur en með faglegri nálgun fyrir eldri nemendur og þá sem læra íslensku sem annað mál með sérstaka áherslu á að skapa samfélag í kringum námið,“ segir Bryndís Rún.

„Ég er mjög þakklát að verkefnið hafi verið samþykkt og tekið inn í Drift og þar fengið aðgang að tengslaneti, sérfræðiþekkingu og frábærum úrræðum sem styðja við þróun og vöxt þess.“