Fara í efni
Fréttir

Þrifagengið hjá ÚA með lengstan starfsaldur

Þrifagengið í ÚA. Frá vinstri: Kristín Stefánsdóttir (sem unnið hefur hjá fyrirtækinu í 38 ár), Ragna Finnsdóttir (43) og Sigríður Stefánsdótrtir (20).

Konurnar í þrifagenginu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa eru með lengstan starfsaldur að meðaltali allra þeirra sem vinna hjá Samherja. Fyrirtækið birti áhugaverðar tölur á heimasíðu sinni, þar sem fram kemur að 53 hafa unnið 30 ár eða lengur hjá Samherja, 139 hafa náð 20 árum og 322 hafa unnið þar í meira en 10 ár.

„Það hefur frá byrjun verið viðhorf stjórnenda Samherja að starfsfólkið sé lykillinn að farsælum rekstri. Þetta viðhorf endurspeglast skemmtilega þegar starfsaldurstölur eru skoðaðar,“ segir á heimasíðunni. Þar er m.a. greint frá því að 103 sjómenn Samherja hafi starfað hjá fyrirtækinu í 10 ár eða lengur.

Í þrifagenginu, sem tekur rösklega á því í lok hvers vinnudags hjá ÚA, eins og segir á heimasíðu Samherja, eru Ragna Finnsdóttir, sem hefur unnið hjá fyrirtækinu í 43 ár, Kristín Stefánsdóttir á 38 ár að baki þar og Sigríður Stefánsdóttir, sem er með 20 ára starfsaldur. Meðtalið er því tæp 34 ár.

Mynd frá 2010 þegar nokkrir starfsmenn skrifstofu og skipaþjónustu Samherja, auk tveggja skipstjóra, fór í árlega fjallgönguferð. Fjórar makar eru með í för. Það sem vekur athygli er að allir þessir starfsmenn eru enn að vinna hjá Samherja. Þetta er á toppi Ytri-Súlna ofan Akureyrar, sem var síðasti tindur af sjö sem voru klifnir þann daginn. Frá vinstri: Atli Dagsson, Finnbogi Reynisson, Guðmundur Þ. Jónsson, Margrét Ólafsdóttir, Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, Vigdís Elísabet Hjaltadóttir, Steinn Símonarson, Kristbjörg Anna Hauksdóttir, Valur Ásmundsson, Margrét Melstað, Unnar Jónsson, Hjörvar Kristjánsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Óskar Þór Vilhjálmsson, Ágúst Jón Aðalgeirsson, Bára Jónsdóttir, Eydun frá Bergi, Hanna Dóra Hermannsdóttir, Eiríkur K. Aðalsteinsson og Davíð Hafsteinsson.