Fara í efni
Fréttir

Spánverjar sólgnir í gellur á aðventunni

Gellað af kappi í ÚA. Konrad Kulis til vinstri og Björgvin Árni Gunnarsson. Myndir af vef Samherja.

Eftirspurn eftir ferskum þorskgellum eykst gjarnan á þessum árstíma á Spáni, enda hefð fyrir því meðal innfæddra að snæða þennan herramannsmat í aðdraganda jólanna. Fjallað er um þetta í skemmtilegri grein á vef Samherja þar sem Sunneva Ósk Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri fyrirtækisins á Akureyri, segir reynt eftir bestu getu að verða við óskum kaupenda, ferskar gellur séu því sendar með flugi til Spánar.

Úrvals hráefni

„Ég er ekki frá því að suma daga séu samtals hátt í tuttugu manns að gella, bæði hérna á Akureyri og á Dalvík. Fjöldinn fer eftir því hvaða fisktegundir er verið að vinna hverju sinni og þegar ekki er verið að gella sinna starfsmennirnir öðrum verkefnum. Þeir sem gella þurfa stundum að mæta snemma á morgnana, áður en sjálf vinnslan hefst. Þetta eru úrvals afurðir, enda koma skipin með hráefnið rétt kælt til okkar. Gellurnar er settar í þriggja eða fimm kílóa kassa og kældar með ís, þannig næst að halda ‏‏‏þeim ferskum allan tímann. Kaupendurnir eru afskaplega ánægðir, enda er eftirspurnin veruleg svo að segja allan ársins hring, mest er hún þó á þessum árstíma,“ segir Sunna Ósk.

Sunneva Ósk Guðmundsdóttir með kassa af ferskum gellum.

Sunneva segir að til sé vélbúnaður sem sker gellur. „Jú jú, við eigum slíkan búnað en hann skilar ekki sömu gæðum, þess vegna eru gellurnar skornar með höndunum. Þeir sem gella eru þaulvanir og afkastamiklir, þannig að þetta gengur allt saman vel,“ segir Sunneva Ósk Guðmundsóttir.

Gellur og kinnar bónus hjá spænskum sjómönnum

Skrifstofa Icefresh Seafood Spain er á norðurströndinni, í borginni San Sebastian í Baskalandi. Þar ræður ríkjum Kenneth Holst Moe, framkvæmdastjóri, sem segir ríka hefð meðal margra Spánverja að borða gellur, sérstaklega á aðventunni.

„Upphafið má rekja til þess að spænskir sjómenn máttu á árum áður hirða gellur og kinnar, þetta var nokkurs konar bónus á launin. Spænskum togurum sem veiða þorsk hefur fækkað mikið í áranna rás, fólk vill engu að síður fá gellur og þá liggur beinast við að flytja þær inn frá Íslandi. Gellur eru borðaðar allan ársins hring hérna á Spáni. Sökum þess að þær eru tiltölulega dýrar kaupir fólk þær við sérstök tækifæri, svo sem í aðdraganda jólanna. Neyslan eykst því verulega þessar vikurnar.“

Gellur í verslun á Spáni. Kílóið kostar þarna 19,95 evrur – 2.900 íslenskar krónur.

Gellur í Pil Pil sósu


Kenneth segir að gellur séu vinsælar í fjölskylduboðum, einnig í sælkeraklúbbum.

„Slíkir klúbbar eru mjög algengir hérna, fólk kemur saman og eldar góðan mat með vinum og vandamönnum. Gellurnar eru steiktar upp úr olíu á pönnu, gelatínið í þeim blandast hægt og rólega saman við olíuna og til verður dýrindis Pil Pil sósa. Við steikinguna er sósan bragðbætt með steinselju. Sjálfur er ég í slíkum klúbbi og hreinlega elska að borða gellur í góðri Pil Pil sósu í góðra vina hópi. Þegar gellur eru á boðstólum á veitingahúsum vel ég gjarnan þann rétt. En staðan er einfaldlega sú að Spánverjar eru sólgnir í íslenskar gellur, sem er afskaplega ánægjulegt,“ segir Kenneth Holst Moe framkvæmdastjóri Icefresh Seafood Spain.