Fara í efni
Fréttir

Þorsteinn Már biðst afsökunar fyrir hönd Samherja

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, þegar nýjasta skip fyrirtækisins, Vilhelm Þorsteinsson EA, hélt í fyrstu veiðiferðina í byrjun apríl. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, biðst afskunar fyrir hönd fyrirtækisins í svokölluðu Namibíumáli í yfirlýsingu í morgun. Þar eru jafnframt gerð grein fyrir nokkrum helstu niðurstöðum úr rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein. 

Meðal þess sem segir í yfirlýsingunni er þetta:

  • Engir starfsmenn Samherja eða félög í eigu Samherja eru á meðal ákærðra í refsimálum í Namibíu.
  • Kyrrsetningarmál er rekið gagnvart nokkrum aðilum þar sem krafist er kyrrsetningar á þeim eignum sem m.a. félög Samherja eiga í landinu. Gögn í málsvörn Samherja í þeim málum hafa verið gerð opinber og eru öllum aðgengileg á vef namibíska dómstólsins.
  • Viðamikil rannsókn Wikborg Rein leiddi í ljós ákveðin atriði í rekstri félaga sem tengjast Samherja í Namibíu sem vöktu spurningar um vandaða viðskiptahætti og gátu aukið lagalega áhættu. Vegna þess hefur Samherji komið á fót ítarlegu kerfi til að fyrirbyggja slík mistök.
  • Félög tengd Samherja nutu ráðgjafar innlendra ráðgjafa í Namibíu. Nokkrir þeirra höfðu pólitísk tengsl og einn af þeim var síðar skipaður stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar National Fishing Corporation of Namibia (Fishcor). Hann og aðilar honum tengdir, veittu félögum tengdum Samherja þjónustu á grundvelli ráðgjafarsamnings.
  • Ráðning þessara ráðgjafa, og það að láta óátalda aðkomu háttsettra aðila í stjórnkerfi Namibíu að ráðgjöf þeirra, vöktu spurningar um vandaða viðskiptahætti. Óumdeild og raunveruleg ráðgjöf var veitt af hálfu ráðgjafanna í Namibíu í gegnum árin en þeir fengu greiðslur án greinargóðra skýringa og fylgiskjala vegna veittrar þjónustu.
  • Samherji hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur en tekur undir þá gagnrýni að við þær aðstæður sem uppi voru hefði átt að standa öðruvísi að þeim á ýmsan hátt.
  • Fyrrverandi framkvæmdastjóri yfir félögunum í Namibíu tók út verulegar fjárhæðir í reiðufé af reikningum félaganna, án nokkurra eða viðhlítandi skýringa. Margt bendir til þess að peningaúttektirnar hafi verið notaðar með óréttmætum hætti
  • Engar vísbendingar eru um að stjórnendur Samherja hafi vitað um að oinberir embættismenn í Namibíu og Angóla hafi haft af því persónulega hagsmuni að úthluta aflaheimildum og nýtingarrétti.
  • Eftir að fyrrverandi framkvæmdastjóra dótturfélaga Samherja var sagt upp störfum kom í ljós að hann hafði tekið þátt í að greiðslur fyrir veiðiréttindi höfðu verið greiddar beint til ofangreindra aðila eða annarra sem voru þeim nátengdir.
  • Samherji hafnar fullyrðingum um að tvíhliða samningur milli Namibíu og Angóla hafi verið gerður að undirlagi Samherja eða dótturfélaga, til þess að afla þeim ótilhlýðilegra hlunninda. 
  • Samherji vill benda á að eftir að nýir stjórnendur höfðu tekið við störfum hjá félögum Samherja í Namibíu varð ljóst að óreiða ríkti um fjölmargt í rekstrinum, þar á meðal um þessar greiðslur fyrir veiðiréttindi.
  • Hluti greiðslna vegna samninga við namibísku ríkisútgerðina Fischor var greiddur inn á reikninga í eigu þriðja aðila í tengslum við svokallað Fischor-styrktarverkefni ríkisstjórnar Namibíu. Þrátt fyrir fyrirmæli frá þar til bærum aðilum á vegum Fischor voru greiðslur ekki alltaf studdar reikningum. Samherji áréttar að starfsmenn Samherjafélaganna drógu þessi fyrirmæli ekki í efa og greiddu samkvæmt þeim í góðri trú um réttmæti þeirra.
  • Rannsóknin leiddi í ljós að greiðslur til ráðgjafanna, til Namgomar Namibia, Tundavala Invest og Fishcor voru almennt óljósar og oft á tíðum inntar af hendi án undirliggjandi samnings milli aðila. Það var til þess að tefla orðspori félaga Samherja í tvísýnu og auka áhættu í rekstri þeirra.
  • Það fyrirkomulag á viðskiptum sem hér hefur verið lýst var sett á laggirnar að frumkvæði og undir sjálfstæðri stjórn fyrrverandi framkvæmdastjóra yfir starfsemi Samherja í Namibíu. Tölvupóstsamskipti í kjölfar starfsloka hans árið 2016 varpa ljósi á óásættanlega háttsemi hans á meðan hann bar ábyrgð á rekstrinum. 
  • Samherji áréttar að ekki verður séð að aðrir starfsmenn en framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi bakað sér saknæma ábyrgð í störfum sínum.
  • Í ljós hefur komið að mistök voru gerð í rekstri sem tengdust alþjóðlegri skipaskrá sem haldin er í Færeyjum. Ekki liggur enn fyrir af neinni nákvæmni hver þau mistök eru en Samherji hefur greitt tryggingarfjárhæð sem verður til staðar þegar niðurstaða er fengin. 

Smellið hér til að lesa yfirlýsingu Samherja.