TAKK! Tvö ár síðan ævintýrið hófst
Í gær voru tvö ár síðan fyrstu fréttirnar birtust á Akureyri.net eftir að núverandi eigendur endurvöktu vefinn. Viðbrögð voru strax afar góð, lesturinn var prýðilegur fyrstu vikurnar, hefur aukist jafnt og þétt allar götur síðan og verið undraverður síðustu mánuði eins og áður hefur verið greint frá.
Vefurinn fór í loftið föstudaginn 13. nóvember 2020 og fyrst daginn var lesendum boðið upp á 22 atriði; fréttir, pistla og greinar. Síðan hefur ekki verið slegið slöku við og frá upphafi hafa að jafnaði birst tæpar átta greinar á dag.
Ofanritaður ritstjóri miðilsins er þakklátur og hrærður yfir viðtökum og fyrir margvíslega aðstoð og stuðning fjölmargra. TAKK!
Afmælisins verður minnst frekar á allra næstu dögum og greint frá því þegar nær dregur.
- Fyrsta fréttin var um merkilega nýjung Samherja, sem hafði keypt skip sem útbúa átti til þess að geyma fisk lifandi þar til komið yrði að landi.
- Einnig var sagt frá því að Norlandair hæfi áætlunarflug frá Reykjavík til Bíldudals og Gjögurs um miðjan mánuðinn.
- Daginn eftir var greint frá því að metupphæð hefði safnast á árlegum Dekurdögum; Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir afhentu Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis 4,2 milljónir króna.
- Fyrsta íþróttafréttin var um að Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason náðu báðir þeim merka áfanga kvöldið áður að leika í 90. skipti með A-landsliðinu í knattspyrnu.
- Einnig birtust fréttir fyrsta daginn um að Orri Hjaltalín hefði verið ráðinn þjálfari knattspyrnuliðs Þórs og að Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, lægi undir feldi og hugleiddi framtíðina auk þess sem tveir félaga hans væru horfnir á braut.
- Í Mannlífsflokknum kenndi ýmissa grasa; m.a. var rætt við Bryndísi Rún Hansen, mesta sundkappa Akureyrar fyrr og síðar, en hún varð að hætta vegna ótúskýrðra veikinda.
- Séra Svavar Alfreð Jónsson skrifaði um Akureyrarkirkju í tilefni 80 ára afmælis hennar og birt var viðtal við Orra Hjaltalín sem lenti í mjög alvarlegu slysi.
- Af menningu var það helsta að frétta að Jón Hjaltason sendi frá sér bók um akureyrska kímniskáldið Káin og Sverrir Páll Erlendsson, góðvinur Akureyri.net og dyggur stuðningsmaður, skrifaði um menningu á Covid-tímum.
- Tveir pistlahöfundar voru kynntir til leiks fyrsta daginn, Hildur Eir Bolladóttir og Sigurður Kristinsson.
- Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, skrifaði aðsenda grein að beiðni Akureyri.net um réttindi neytenda á tímum Covid.
- Síðast en ekki síst var það svo að fyrsta gamla myndin frá Minjasafninu á Akureyri birtist þennan dag og ein slík hefur glatt lesendur hvern einasta föstudag síðan, alls 105 myndir.
Hér má sjá nokkur sýnishorn frá fyrstu tveimur dögunum:
FRÉTTIR
Hyggjast geyma fisk lifandi í tönkum um borð
Norlandair hefur flug til Bíldudals og Gjögurs
Söfnuðu 4,1 milljónum króna á Dekurdögum
ÍÞRÓTTIR
Aron og Birkir komnir með 90 landsleiki
Orri Hjaltalín tekur við þjálfun Þórs
Almarr undir feldi, Aron og Guðmundur farnir
MANNLÍF
Lána lautarferðakörfur, plokkstangir og kökuform
Hættir vegna erfiðra, óútskýrðra veikinda
Fegursta kirkjustæði hérlendis og erlendis
Munaði sentimetrum að ég steindræpist
MENNING
„Káinn eina alvöru kímniskáld Íslendinga“
Fátt um tónleika en undramargt nýtt
PISTLAR
Að nota fjölmiðla eða vera notaður af þeim
UMRÆÐAN
Réttindi neytenda á tímum Covid
GAMLA MYNDIN
Þekkir einhver þessa gömlu fótboltamenn?
Nokkrar þeirra frétta sem birtust fyrstu tvo dagana á Akureyri.net.