Fara í efni
Fréttir

Gleðilegt nýtt ár – takk fyrir ævintýralegt lestrarár 2023!

Akureyri um miðnætti í nótt. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Akureyri.net óskar lesendum sínum og velunnurum gleðilegs nýs árs og þakkar innilega fyrir árið sem var að kveðja.

2023 var þriðja heila starfsár Akureyri.net síðan vefmiðillinn var endurvakinn af nýjum eigendum í nóvember 2020. Viðtökur voru afar góðar strax í upphafi; Akureyringar, hvar sem þeir eru niðurkomnir, og aðrir áhugamenn um bæinn góða við fjörðinn fallega, tóku miðlinum fagnandi.

Akureyri.net vex jafnt og þétt ásmegin, fleiri pennar bættust í hópinn á nýliðnu ári og umferðin er orðinn gríðarleg. Fjölmiðillinn hefur sem sagt fest sig rækilega sessi eins og tölfræðin sýnir glöggt:

  • Nokkra síðustu mánuði nýliðins árs voru heimsóknir að meðaltali um 11.000 á dag en voru liðlega 6.000 á dag á sama tíma 2022.
  • Síðari hluta ársins voru „einstakir gestir“ um 85.000 á mánuði, flestir í nóvember – 89.222, og er þá hver og einn (hver IP tala) aðeins talinn einu sinni. Samsvarandi tala var rúmlega 52.000 árið 2022 
  • Íbúar á Akureyri eru 20.000 þannig að gestafjöldinn er í raun stórmerkilegur.
  • Flettingar voru um 2 milljónir í nóvember, sem er meira en nokkru sinni;  flettingar voru rúmlega 1,1 milljón á mánuði á síðasta fjórðungi ársins 2022. 

Akureyri.net leitast við að fjalla sem mest og best um hvaðeina í akureyrsku mannlífi. Sagðar eru allar almennar fréttir, fjallað um íþróttir, menningu og fjölbreytt mannlíf á margvíslegan og myndrænan hátt. Slagorðið Oftast sólarmegin fellur í góðan jarðveg, lesendur hafa lýst ánægju með efnistök og hvatt undirritaðan til dáða. Þeir eru duglegir við að benda á áhugavert efni af ýmsu tagi og ástæða er til þess að hvetja fólk til að halda því áfram.

Best er að senda ábendingar um efni á netfangið skapti@akureyri.net eða með því að hringja í síma 669-1114.

Áfram Akureyri!

Bestu kveðjur,

Skapti Hallgrímsson
ritstjóri Akureyri.net

Akureyri á miðnætti í nótt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson