Fara í efni
Fréttir

Sex fjölskyldur fá áramótaglaðning

Sigrún Steinarsdóttir með áramótaglaðning frá Akureyri.net sem hún færir sex fjölskyldum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sex barnafjölskyldur fá afhentan áramótaglaðning frá Akureyri.net í dag; flugeldapakka, blys og tilheyrandi. Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum Akureyri og nágrenni fékk varninginn í hendur í dag og tók að sér að koma honum til fólks sem hún veit að þarf á stuðningi að halda.

Sigrún segir að því miður séu margar fjölskyldur í þeirri stöðu að geta ekki glatt börnin sín með því að kaupa vörur af þessu tagi. „Ég er búin að hafa samband við sex fjölskyldur og allir urðu að sjálfsögðu mjög ánægðir. Þetta var ekki á listanum yfir það sem hægt var að kaupa fyrir áramótin,“ sagði Sigrún síðdegis í dag.

Þetta ár „hreint helvíti“

Sigrún hefur starfrækt Matargjafir Akureyri og nágrenni síðan 2014 og segir sífellt fleiri þurfa á aðstoð að halda. Margir líði skort; hafi hreinlega ekki efni á neinu. „Allt hefur hækkað í verði og það eru margir sem ná ekki endum saman um mánaðamót,“ segir hún og bætir við: „Þetta ár hefur verið hreint helvíti.“

Sigrún kveðst aðstoða um 250 fjölskyldur í hverjum einasta mánuði, bæði með því að útvega mat og gjafakort. Það eru mestmegnis  fjárframlög frá einstaklingum sem gera henni kleift að halda starfseminni úti. „Fyrirtæki hafa styrkt okkur fyrir jólin en það er aðallega góðvild einstaklinga sem gerir okkur þetta mögulegt.“

Um 30 milljónir króna

Ástæða þess að Sigrún ákvað að rétta fólki hjálparhönd með þessum hætti er einföld: „Við byrjuðum tvær saman, höfðum báðar verið í þessum aðstæðum og vildum hjálpa fólki,“ segir hún.

Á árinu hefur Sigrún afhent fólki Bónuskort að verðmæti samtals 11 milljóna króna. Hún segir erfitt að  meta nákvæmlega hve mikils virði maturinn er sem fólk fær hjá henni, hann sé gríðarlega mikill og upphæðin að minnsta tvisvar sinnum hærri en kortin. Stuðningurinn við fólk nemur því alls um 30 milljónum króna á árinu.

Takk!

Um síðustu áramót brá Akureyri.net á leik með þeim hætti að nöfn nokkurra einstaklinga sem styrkja rekstur fjölmiðilsins með mánaðarlegu framlagi voru dregin út og allir fengu vörur frá flugeldamarkaði björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri.

Að þessu sinni ákvað Akureyri.net að fara þá leið sem að framan greinir. Hver fjölskylda fær glaðning að verðmæti um 11.000 króna.

„Þetta er mjög fallega gert af ykkur og kemur í góðar þarfir. Takk innilega fyrir,“ sagði Sigrún í dag.

Sigrún hefur unnið frábært starf sem því miður er nauðsynlegt í okkar annars góða samfélagi. Við sem stöndum að Akureyri.net segjum því miklu frekar takk við hana! Okkur þykir vænt um að geta lagt örlítið lóð á vogarskálina.

Skapti Hallgrímsson
ritstjóri Akureyri.net