TAKK! Þrjú ár að baki en ævintýrið nýhafið
Þrjú ár eru í dag síðan útgáfufélagið Eigin herra endurreisti Akureyri.net og það eru sannarlega engar ýkjur að fjölmiðillinn hafi vaxað og dafnað.
Undirritaður hélt af stað út í óvissuna föstudaginn 13. nóvember 2020 og það var aldeilis enginn óhappadagur.
Lestur Akureyri.net hefur aukist gríðarlega undanfarið. Í nýliðnum októbermánuði gátum við fagnað bæði stærsta degi frá upphafi og því að aldrei hafa fleiri einstakir gestir farið inn á vefinn.
- Vefurinn var heimsóttur í 33.898 skipti dag einn í október. Heimsóknir hafa aldrei verið fleiri á einum og sama deginum.
- Einstakir gestir (IP tölur) í október voru 85.142 – hver sími telst ein IP tala og hver tölva önnur. Margir eiga því tvær IP tölur. Hver IP tala er aðeins talin einu sinni, sama hve viðkomandi fer oft inn á vefinn í mánuði þannig að 85.142 einstakir gestir er ótrúlegur fjöldi. Rétt er að minna á Akureyringar eru 20.000 svo ekki þarf að velkjast í vafa um að Akureyri.net á sér marga dygga lesendur annars staðar en við Eyjafjörð.
Ýmsar nýjungar verða kynntar í tilefni afmælisins.
- Í morgun birtist fyrsti pistill Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þess akureyrska eðal penna; fjölmiðlamanns og rithöfundar til áratuga. Á hverjum mánudagsmorgni næstu misseri verður birtur pistill Sigmundar Ernis þar sem hann rifjar upp æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hér er fyrsti pistillinn.
- Fyrir helgi birtist á forsíðu Akureyri.net tengill á Bliku, þann frábæra veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, þar sem með einum smelli er hægt að kynna sér veður augnabliksins og veðurspá, fyrir Akureyri, Öxnadalsheiði, Ljósavatnsskarð og Dalvík. Sem sagt; ekki er lengur nauðsyn að bregða sér út á stétt í því skyni að gá til veðurs og ferðalangar halda ekki út í óvissuna, sama hvert ferðinni er heitið.
Meira um nýjungar á Akureyri.net síðar í dag.
Akureyri.net fór fyrst í loftið 26. júlí árið 2005, fyrir rúmum 18 árum, þegar Þórhallur Jónsson kaupmaður í Pedromyndum hleypti vefnum af stokkunum. Þórhallur stóð vaktina um árabil ásamt góðu fólki en vefurinn hafði legið í dvala um hríð þegar undirritaður ákvað að taka slaginn á ný eftir tveggja ára hlé frá daglegri blaðamennsku.
Ljóst var frá fyrsta degi að Akureyringar og aðrir áhugamenn um höfuðstað Norðurlands kunnu vel að meta framtakið. Viðtökur voru strax frábærar – bæði fann ég fyrir miklu þakklæti og vefurinn var mikið lesinn. Fjölmiðill sem einblínir með fjölbreyttum hætti á nærumhverfið, og fylgist með því sem Akureyringar eru að sýsla annars staðar, er augljóslega afar mikilvægur.
MÖRG ÞÚSUND ÞAKKIR!
Skapti Hallgrímsson,
ritstjóri Akureyri.net