Sveitarstjórn Runavíkur heimsótti Akureyri
Borgarstjóri, varaborgarstjóri, fulltrúar í borgarstjórn og sendiherra Færeyja á Íslandi sóttu Akureyri heim í liðinni viku og hittu þá meðal annarra bæjarfulltrúa og bæjarstjórann á Akureyri. Frá þessu segir á vef Akureyrarbæjar.
Gestirnir fengu kynningu á sögu bæjarins, starfsemi og rekstri, en að kynningu lokinni fóru fram umræður um áskoranir og áherslur í rekstri sveitarfélaga, þjónustuna og fyrirkomulag í stjórnsýslunni. Runavíkingar heimsóttu meðal annars Sundlaug Akureyrar, Hafnasamlag Norðurlands og Menningarhúsið Hof.
Hópurinn frá Runavík heimsótti einnig fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík í vikunni sem leið, ásamt sendiherra Færeyja. Þessi heimsókn var hluti af stærri heimsókn þar sem rúmlega fjörutíu verkfræðingar á vegum færeyska fyrirtækisins SMJ heimsóttu Samherja fiskeldi á Suðurnesjum.
Færeysku gestirnir við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Mynd: Samherji.is.
Í frétt á vef Samherja segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, mjög ánægjulegt að fá Færeyinga í heimsókn norður. „Sveitarstjórnarfólkið hafði greinilega mikinn áhuga á allri tækninni og þeim góða aðbúnaði sem er í nýja húsinu okkar,“ segir Gestur á heimasíðu Samherja. Hann segir að eðlilega hafi verið rætt nokkuð um hlutverk sveitarfélaganna á Íslandi varðandi innviði, svo sem hafnarmannvirki. „Atvinnulífið í Runavík byggir á sjávarútvegi, þannig að sveitarstjórnin hafði eðlilega áhuga á mörgum þáttum starfseminnar í samanburði við stöðuna í Færeyjum. Fyrir okkur var auðvitað líka kærkomið að fá tækifæri til að bera stöðuna hjá okkur saman við í Færeyjum og skiptast á skoðunum," segir Gestur.“