Fara í efni
Fréttir

Styrkleikar Íslendinga liggja í samstöðunni

Helga Þórisdóttir. Mynd: aðsend

Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Akureyri.net óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum frá frambjóðendum, og munu svör þeirra birtast hér á vefnum. Allir frambjóðendur fengu sömu spurningar.

Helga Þórisdóttir

 

Hvers vegna býður þú þig fram til embættis forseta Íslands?

Ég er hvorki háð pólitískum áhrifum né hagsmunahópum og ég hef víðtæka þekkingu og reynslu af lögum landsins. Ég hef komið fram fyrir hönd Íslands víða um heim og haldið alþjóðlegar ráðstefnur hér á landi. Ég á sæti í hinu Evrópska persónuverndarráði og hef komið því til leiðar að réttindi Íslands og annarra EES ríkja hafa styrkst í Evrópusamvinnu.

Sem forseti verð ég ekki samnefnari þjóðarinnar heldur þjónn ykkar. Ég mun ekki setja sjálfa mig á stall heldur þjóðina! Þess vegna verð ég í lifandi sambandi við ykkur, fólkið í landinu.

Hagsmunir ykkar, áhyggjur, öryggi og væntingar verða mitt leiðarljós.

Hvert er helsta hlutverk forseta Íslands að þínu mati?

Að fylgjast með takti þings og þjóðar. Vera málsvari þeirra sem minna mega sín. Og síðast en ekki síst, efla samskipti á alþjóðavettvangi hvað varðar vísindi, viðskipti og menningu.

Ertu ánægð(ur) með kosningabaráttuna hingað til?

Þetta hefur verið mikið ævintýri og ég hef haft mjög gaman að þessu.

Hvernig meturðu stöðu þína miðað við skoðanakannanir?

Skoðanakannanir hafa ekki verið að koma vel út fyrir mig. Ég hef verið að skerpa á skilaboðunum mínum, og finn fyrir auknum meðbyr.

Hver er þín skoðun á byggðaþróun á Íslandi? Er nóg gert til þess að jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Eru einhver sérstök mál á þessu sviði sem eru þér hugleikin?

Það er mín skoðun að fólk eigi að geta búið þar sem það vill. Þar séu atvinnutækifæri, góðar samgöngur, góð fjarskipti og orkuöryggi. Sem dæmi þá stóð ég fyrir því, ásamt sýslumanninum á Húsavík, að útbúin var í hans húsnæði, starfsstöð fyrir Persónuvernd.

Ætlar þú þér að ferðast um landið og kynna framboð þitt? Ef svo er, hvenær verður þú fyrir norðan?

Ég var á Akureyri og Dalvík um daginn. Er nú á Vestfjörðum og geri ráð fyrir að koma aftur á Akureyri í næstu viku.

Átt þú þér uppáhalds stað eða afþreyingu á Akureyri?

Við fjölskyldan förum alltaf inn í Eymundsson og fáum okkur gott kaffi og blað og horfum á mannlífið. Svo er það Bakaríið við brúna, Jólaþorpið, sundið, Hlíðarfjall, Lystigarðurinn og Þelamerkurlaug – sem sagt eiginlega allt 😊

Hvað verður þitt fyrsta verk á Bessastöðum, ef þú hlýtur kosningu? (persónulegt, ekki sem tilheyrir skyldum forsetans)

Ég myndi fá mér kaffi. Kanna húsakostinn. Ganga síðan inn í kirkjuna og biðja.

Hverjir finnst þér styrkleikar okkar Íslendinga vera?

Samstaðan okkar þegar á reynir.