Fara í efni
Fréttir

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar róleg

Svavar Pálsson, sýslumaður á Norðurlandi eystra, kíkti við á kjörstað í dag. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Akureyri fer fremur hægt af stað að sögn Svavars Pálssonar, sýslumanns á Norðurlandi eystra. Fyrr í dag voru greidd utankjörfundaratkvæði hjá embættinu að nálgast þúsund. Þar með talin eru atkvæði sem fólk úr öðrum kjördæmum hefur greitt á Akureyri. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst 3. maí.

Varla þarf að minna kjósendur á að hafa meðferðis gild persónuskilríki (ökuskírteini, vegabréf eða nafnsskírteini. Heimilt er að framvísa rafrænum skilríkjum. 

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Akureyri fer fram að Geislagötu 5 (við Bankastíg), þar sem Arionbanki var áður til húsa. Nokkuð stöðugur straumur fólks var á kjörstað á meðan tíðindamaður frá Akureyri.net var á staðnum fyrr í dag, en þó engin biðröð. Svavar segir þó að um og upp úr næstu viku, frá miðvikudegi/fimmtudegi megi búast við að kjörsóknin taki kipp. Eitthvað er um það að fólk skipti um skoðun eftir að hafa greitt atkvæði og komi og kjósi aftur. Síðasta atkvæði gildir.

Sýslumaður vekur athygli á að kjósandi ber sjálfur ábyrgð á að koma atkvæði sínu til skila, kjósi hann utan kjörfundar hjá kjörstjóra utan viðkomandi kjördeildar. Nægjanlegt er að koma utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild sveitarfélaganna innan þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.


Kjörstaður utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Akureyri er að Geislagötu 5 þar sem Arionbanki var áður til húsa.

Ekki er þó eingungis hægt að greiða atkvæði á kjörstaðnum í Geislagötunni heldur geta kjósendur sem alls ekki eiga heimangengt vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, sótt um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi, en umsóknir um slíkt þurfa að berast sýslumannsembættinu á þar til gerðu eyðublaði sem finna má á vefnum kosning.is í síðasta lagi fimmtudaginn 30. maí kl. 10. Embættið hefur einnig með höndum atkvæðagreiðslu á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum og hafa nú þegar verið á ferðinni í þeim erindagjörðum, en slíkar kosningar eru auglýstar sérstaklega innan hlutaðeigandi stofnana og á syslumenn.is

Aðstoð við kosningu

Tiltölulega nýtt atriði við kosningar, bæði á kjörfundi og utan hans, er að kjósendur sem þurfa aðstoð við að greiða atkvæði ráða því nú sjálfir hver aðstoðar. Þetta er þó þeim takmörkunum háð í framkvæmd að hvert og eitt þeirra sem aðstoðar má aðeins aðstoða þrjá kjósendur, sem gera má ráð fyrir að sé hugsað til þess að koma í veg fyrir einhvers konar smölun með því að bjóða fólki sem á þarf að halda að aðstoða það.


Ýmsar leiðbeiningar á kjörstað. Þær er einnig að finna á kosningavefnum kosning.is. Smellið á myndina til að fara inn á kosningavefinn.

Um aðstoð við kosningu eru eftirfarandi upplýsingar á vef landskjörstjórnar: 

Allir kjósendur geta fengið aðstoð við að kjósa og þurfa ekki að gefa neinar ástæður fyrir því. Kjósandi getur komið með eigin aðstoðarmann eða fengið aðstoð frá starfsfólki kosninga.

Ef kjósandi er með eigin aðstoðarmann þá gildir eftirfarandi:

  • Aðstoðarmaður þarf að fylla út sérstakt eyðublað/yfirlýsingu.

  • Aðstoðarmaður má ekki vera frambjóðandi í kosningunum og ekki heldur maki, barn, systkini eða foreldri frambjóðanda.

  • Aðstoðarmaður má ekki aðstoða fleiri en þrjá kjósendur við sömu kosningar.

Ef kjósandi fær aðstoð við að kjósa á kjörstað stöðvar kjörstjórn alla umferð um kjördeildina á meðan kosningin fer fram til að tryggja að hún sé leynileg. Bókað er um aðstoðina í fundargerð.

Fjórir aðalkjörstaðir og samstarf við sveitarfélögin

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hefur einnig umsjón með utankjörfundaratkvæðagreiðslu um allt umdæmið, en fastir kjörstaðir eru á Akureyri, Húsavík, Siglufirði og á Þórshöfn. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer einnig fram í samstarfi við sveitarfélögin í Dalvíkurbyggð, Grýtubakkahreppi, Þingeyjarsveit, Mývantssveit, á Raufarhöfn, Kópaskeri, í Hrísey og Grímsey. Sjá nánar á listum yfir kjörstaði á skjáskotum hér að neðan.