Starfsemin færist inn í nútímann með nýju tæki
Stærsta og dýrasta tæki sem Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri hafa safnað fyrir verður tekið í notkun innan tíðar. Það er svokölluð hryggsjá, eins konar siglingatæki sem notað er við flóknar skurðaðgerðir. Tækið verður hið eina sinnar tegundar á landinu.
Bjarki Karlsson, bæklunarlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og Akureyringurinn Freyr Gauti Sigmundsson, skurðlæknir í Svíþjóð, hafa lengi unnið saman og á undanförnum árum framkvæmt sífellt sérhæfðari bakaðgerðir á SAk. Þeir bíða spenntir eftir nýja tækinu en með tilkomu þess færist starfsemin upp um deild, ef svo má segja; mögulegt verður að gera mun flóknari aðgerðir en fram að þessu.
Hryggsjáin kostar um 40 milljónir og hafa Hollvinasamtökin þegar fjármagnað tækið. Samtökin voru stofnuð árið 2013 og 10 ára afmælinu verður því fagnað á þessu ári. Á þessum áratug hafa samtökin safnað nærri 500 milljónum króna til tækjakaupa fyrir SAk, að sögn Jóhannesar Bjarnasonar, formanns samtakanna. Hollvinir SAk eru nú um 2.700.
Nákvæmara og öruggara
Freyr Gauti býr í Svíþjóð sem fyrr segir en kemur heim nokkrum sinnum á ári, eina viku í senn, og þeir Bjarki framkvæma þá aðgerðir saman. Hann er vanur að nota tæki eins og þetta, enda orðið staðalbúnaður erlendis, og segir það mikið þarfaþing sem muni breyta mjög miklu. „Já, það mun færa þá starfsemi sem við höfum verið að þróa hér í nútímabúning. Það má segja að um sé að ræða gps staðsetningartæki; þetta gengur þannig fyrir sig að við festum loftnet á sjúklingana og skönnum þá inn; þá sjáum við allt sem við þurfum í tvívíðu og þrívíðu rúmi og allt verður mun nákvæmara og öruggara, til dæmis í sambandi við mænu og taugar,“ segir Freyr Gauti við Akureyri.net.
Á skurðstofunni. Frá vinstri: Bjarki Karlsson, Elva Ásgeirsdóttir og Hulda Birgisdóttir skurðhjúkrunarfræðingar, og Freyr Gauti Sigmundsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
„Bjarki hefur í mörg ár gert einfaldar bakaðgerðir eftir slys og vegna meinvarpa í baki þannig að það sem ég geri með honum er bara lítill hluti af starfseminni hér. Síðustu 10 ár höfum við átt mjög gott samstarf; höfum smám saman byggt upp þessa starfsemi hér á Akureyri og síðan 2016 höfum við gert um 20 sérhæfðar aðgerðir á ári. Við höfum í nokkur ár verið með sérstakt bakskurðarborð sem Hollvinir borguðu fyrir og það nýtist áfram með nýja tækinu.“
Hátæknistarfsemi
Freyr Gauti segir Sjúkrahúsið á Akureyri henta vel fyrir þá starfsemi sem hér um ræðir; skurðstofurnar séu mjög góðar og á stórri bæklunardeild sé úrvals starfsfólk með mikla þekkingu.
„Það hefur verið mjög mikill skilningur á þessu hjá þeim sem stjórna Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem er mikilvægt, og síðustu ár hafa Sjúkratryggingar Íslands borgað fyrir aðgerðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri þannig að sjúklingar þurfa ekki að fara til útlanda í aðgerð, sem skiptir fólk auðvitað verulegu máli. Við höfum fengið sjúklinga alls staðar af landinu, sem er mjög mikilvægt fyrir sjúkrahúsið, þetta er hátæknistarfsemi sem hefur áhrif á mjög marga hér,“ segir hann og nefnir hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og svæfingalækna.“
Byggði upp starfsemina í Örebro
„Þessi svokölluðu siglingatæki hafa verið að ryðja sér til rúms í hryggjarskurðlækningum síðustu 15 til 20 árin, þetta er orðinn staðalbúnaður á flestum stöðum. Þegar tækið er fyrir hendi getum við gert flóknar aðgerðir með öruggari hætti; hættan er minni fyrir sjúklinga og aðgerðirnar taka minni tíma,“ segir Freyr Gauti og bætir við að tækið muni einnig nýtast öðrum sérgreinum í bæklunarlækningum, til dæmis slysalækningum.
Síðasta áratuginn hefur Freyr Gauti eingöngu fengist við flóknar bakaðgerðir. Hann nam fræðin í Svíþjóð og starfaði lengi í Lundi og Malmö „en nú er ég ábyrgur fyrir allri hryggjarstarfsemi á sjúkrahúsinu í Örebro. Fjögur ár eru síðan mér var boðið að byggja upp þá starfsemi þar en er núna líka að hjálpa til á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og ætla að gera það næsta hálfa árið. Þar er þörf á hjálp.“
Íþróttamaður Akureyrar og Ólympíufari
Margir muna eftir Frey Gauta sem margföldum meistara í júdó á árum áður; hann var einn sá besti í herbúðum KA á gullaldarárum júdódeildar félagsins og keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Freyr Gauti var kjörinn íþróttamaður Akureyrar í tvígang, 1986 og 1992. Hann tók oft hressilega á andstæðingunum enda sterkur og fylginn sér. Nú eru handtökin fínlegri og hárnákvæm!