Skata í hádeginu og skipin í jólabúningi
Starfsfólk ÚA á Akureyri tók forskot á sæluna í hádeginu er vel skæst skata frá Dalvík var á matseðlinum, sem margir höfðu beðið eftir með tilhlökkun. Skip Samherja og ÚA sem komin eru í land eru í jólabúningi, ljósum prýdd. Frá þessu er greint á vef Samherja í dag.
Sigurður Már Harðarson matreiðslumeistari í mötuneyti ÚA segir að strax í byrjun aðventunnar hafi starfsfólkið rætt við sig um hugsanlega skötuveislu. „Með fiskinum erum við með gulrætur, rófur, kartöflur, brætt smjör, rúgbrauð og hamsatólg. Við ákváðum fyrir nokkru síðan að hafa skötuna í dag og auðvitað í góðu samráði við starfsfólkið. Það er gaman að elda skötu og allir hafa skoðun á bragðinu og lyktinni. Sjálfum finnst mér skatan ómissandi. Það eru hins vegar ekki allir sem vilja skötu og þess vegna erum við líka með saltfisk á boðstólum,“ segir Sigurður Már á vef fyrirtækisins.
Skatan góð
Agnar Pétursson hefur starfað í nærri fjóra áratugi hjá ÚA. Hann fékk sér skötu í hádeginu. „Hún er fín, svolítið sterk. Mér skilst að skatan sé frá Dalvík og það er auðvitað frábært. Sjálfur er ég ekki alinn upp við að borða skötu, en hérna hefur oftast verið skata á aðventunni og ég borða hana með bestu lyst. Ég fer aftur til starfa saddur og sáttur eftir þessa veislu,“ segir Agnar.
Skipaflotinn
Skip Samherja og ÚA koma til hafnar eitt af öðru og áhafnirnar komast í kærkomið jólafrí. Vilhelm Þorsteinsson EA, nýjasta skip Samherja, liggur við Eimskipafélagsbryggjuna á Akureyri. Þórhallur Jónsson í Pedrómyndum á Akureyri sendi drónann á loft og myndaði skipið, sem speglast vel, jólaljósum prýtt, í fallegri aðventustillunni. Á morgun getum við svo væntanlega sýnt öll skipin í jólabúningum.