Fara í efni
Fréttir

Samherji stækkar landeldisstöð um helming

Stjórn Samherja fiskeldis hefur ákveðið að stækka landeldisstöð félagsins í Öxarfirði um helming, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn af laxi á ári. Þetta kemur fram á vef Samherja.

Áætlaður kostnaður er um einn og hálfur milljarður króna. Framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis segir miðað við að framkvæmdum verði lokið eftir um það bil eitt ár. „Sem hluti af hringrásarhagkerfi eldisins, bættri nýtingu og kolefnisjöfnun er landgræðsla og síðar skógrækt áformuð á nærliggjandi jörð, sem Samherji hefur keypt vegna stækkunarinnar,“ segir á vef fyrirtækisins. 

Fimm sinnum stærri ker

Samherji fiskeldi hefur í nokkurn tíma kannað möguleika á að stækka landeldisstöðina í Öxarfirði. Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis segir að framkvæmdir hefjist á næstunni, fyrst þurfi að ljúka vinnu við skipulagsmál á svæðinu sem er á lokastigi.

Á vef Samherja segir:

„Þetta er nokkuð umfangsmikið verkefni. Kerin sem við byggjum verða alls fimm vegna stækkunarinnar, um helmingi stærri að umfangi en stærstu ker sem fyrir eru. Þá þarf að auka sjótöku, byggja hreinsimannvirki, stoðkerfi og koma fyrir ýmsum tækjabúnaði. Undirbúningsvinnu er nú að mestu lokið, leyfin eru að klárast og næst er að hefjast handa,“ segir Jón Kjartan.

Samherji hefur keypt lóðina þar sem núverandi starfsemi fer fram og einnig jörðina Akursel, sem er vestan við stöðina. Jón segir að þar verði, auk sjótöku, nýttur áburður frá stöðinni til landgræðslu og síðar skógræktar.

„Samherji áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi á Reykjanesi á næstu árum og þessi stækkun í Öxarfirði tengist þeim áformum. Það má segja að stækkunin fyrir norðan sé á vissan hátt undanfari þessa stóra verkefnis okkar á Reykjanesi. Við ætlum að prófa nýja hluti og í stærri einingum en áður og nýta þá reynslu við hönnun og rekstur á nýju stöðinni.“

Öxarfjörður hentugur staður

Jón Kjartan segir að stækkunin í Öxarfirði komi nærsamfélaginu til góða á ýmsan hátt.

„Já, klárlega. Með helmingi stærri stöð eykst umfangið að sama skapi. Störfum fjölgar, aðflutningar til og frá stöðinni munu aukast og þörf á aðkeyptri þjónustu til rekstrarins verður meiri. Þetta eflir samfélagið og undirstrikar jafnframt trú okkar á landeldi og að Öxarfjörðurinn sé hentugur staður fyrir slíka atvinnustarfsemi.“