Samherji: Umfangsmikið landeldi á laxi
Samherji fiskeldi ehf. hefur gert samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Markmiðið með landeldinu er að framleiða heilnæma gæða vöru með lágu vistspori. Félagið hefur tryggt sér aðgang að sjó og raforku til að framleiða allt að 40 þúsund tonn af laxi á landi árlega auk þess sem nýttur verður ylsjór sem er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Þá hefur Samherji fiskeldi samið við landeigendur vegna uppbyggingarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja.
„Uppbyggingin laxeldis á landi innan Auðlindagarðsins byggir á þekkingu Samherja fiskeldis og HS Orku á afar ólíkum sviðum en þegar hún er lögð saman teljum við hagkvæmt að þróa umfangsmikið landeldi sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Þá munu þessar fjárfestingar skapa tugi starfa í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum og auka útflutningstekjur Íslands umtalsvert,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja. „Stjórn Samherja hf hefur þegar samþykkt að leggja þessu landeldisverkefni til 7,5 milljarða króna til þess að tryggja uppbyggingu fyrsta fasa. Það sýnir að mínu mati þá tiltrú sem við höfum á því að þetta sé rétt leið til framtíðar matvælaframleiðslu og verðmætasköpunar. Á síðari stigum munum við leita til fleiri fjárfesta til að tryggja heildar uppbyggingu verkefnisins,“ segir Þorsteinn.
Stór áform á alþjóðavísu
Áformað er að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi í þremur áföngum á næstu 11 árum. Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna en stjórn Samherja hefur ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins, eins og áður kom fram.
„Landeldisáformin í Auðlindagarðinum teljast stór í samanburði við önnur landeldisverkefni sem nú eru í undirbúningi á alþjóðavísu. Fjölmörg störf verða til á framkvæmdatímanum og á annað hundrað störf við landeldið þegar vinnsla á afurðum hefst,“ segir í tilkynningu Samherja.
Samkvæmt áætlunum Samherja fiskeldis mun seiðaeldi við fyrsta áfanga hefjast í upphafi árs 2023 og áframeldi og vinnsla á afurðum á árunum 2024 og 2025. Í fyrsta áfanga verður framleiðslan 10.000 tonn af laxi og áætluð fjárfesting upp á 17 milljarða króna. Í öðrum áfanga verður bætt við 10.000 tonnum og í þriðja áfanga 20.000 tonnum. Ef allt gengur að óskum verður landeldið í Auðlindagarðinum komið í full afköst á árinu 2032.
Samherji fiskeldi, sem er félag í samstæðu Samherja, er nú þegar með nokkur umsvif á Suðurnesjum en fyrirtækið rekur frumvinnsluhús og fullvinnslu í Sandgerði, eldisstöð á Stað við Grindavík og eldisstöð á Vatnsleysuströnd. Þar að auki er fyrirtækið með landeldi á laxi á Núpsmýri við Kópasker og seiðastöð á Núpum í Ölfusi.
- Mynd að ofan: Tölvugerð mynd af áformuðu landeldi Samherja fiskeldis á Reykjanesi
Smellið hér til að lesa nánar um málið á heimasíðu Samherja.