Fara í efni
Fréttir

Mikilvægir kvennaleikir samtímis í dag

Eva Wium Elíasdóttir og Matea Lonac verða í eldlínunni í dag; Eva í Íþróttahöllinni með Þór gegn Haukum og Matea með KA/Þór gegn Aftureldingu í KA-heimilinu. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfuknattleik og KA/Þórs í handknattleik eiga bæði mikilvæga heimaleiki í dag, nákvæmlega á sama tíma. Þórsstelpurnar spila í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins í körfunni á sama tíma og KA/Þór mætir Aftureldingu í toppslag Grill 66 deildarinnar. Þessi akureyrsku kvennalið eiga það sameiginlegt að hafa ekki tapað heimaleik í deildarkeppnum í vetur, en KA/Þór féll þó úr Powerade-bikarnum eftir tap á heimavelli.

KA/Þór hefur leitt Grill 66 deildina frá upphafi, hefur unnið níu leiki af tíu og aðeins gert eitt jafntefli. Liðið er með tveggja stiga forskot á HK, sem þó hefur leikið einum leik meira, og fjögurra stiga forskot á Aftureldingu, mótherjana í leik dagsins. Það er því augljóst að sigur í dag er mikilvægur og tryggir vel stöðu liðsins á toppi deildarinnar. 

  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið 18. janúar kl. 15:00
    KA/Þór - Afturelding

Aftur í bikarvikuna eða ekki?

Þórsstelpurnar í körfuboltanum taka á móti toppliði Bónusdeildarinnar, Haukum, í átta liða úrslitum VÍS-bikarkeppninnar í dag. Þessi lið hafa mæst einu sinni í deildarkeppninni í vetur og þá höfðu Haukar betur með níu stiga mun og er sá leikur einmitt síðasti tapleikur liðsins í vetur, en Þórsstelpurnar hafa nú unnið átta leiki í röð í Bónusdeildinni, auk eins leiks í VÍS-bikarnum. Haukar hafa unnið fimm leiki í röð, en þær töpuðu síðast þegar þær brugðu sér norður, þá gegn Tindastóli á Sauðárkróki.

Akureyri.net hóf létta upphitun fyrir bikarleikinn með spjalli við þær Esther Fokke og Amandine Toi í gær: „Það er gaman að horfa á okkur spila“. Þær eru báðar með það á hreinu að Þórsliðið á möguleika að fara alla leið, stefna auðvitað að sigri og þar með að komast áfram í undanúrslitin.

Það má því klárlega búast við hörkuleik milli þessara liða í bikarkeppninni í dag og að sjálfsögðu ætla bæði liðin sér að vinna og komast áfram í undanúrslitin, vera þátttakendur í bikarvikunni í síðari hluta marsmánaðar.

  • VÍS-bikarkeppni kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri 18. janúar kl. 15:15 - seinkað um 15 mínútur frá upphaflegri tímasetningu.
    Þór - Haukar

Í öðrum leikjum átta liða úrslitanna mætast Njarðvík og Tindastóll í Njarðvík, Grindavík og Stjarnan í Smáranum í Kópavogi og Ármann og Hamar/Þór í Laugardalshöllinni.