Fara í efni
Fréttir

Tilkynnt um tíu efstu í kjörinu hjá ÍBA

Baldvin Þór Magnússon og Sandra María Jessen voru kjörin íþróttafólk Akureyrar 2023. Baldvin var ekki viðstaddur verðlaunahátíðina. Þau eru bæði á topp tíu aftur í kjörinu fyrir nýliðið ár. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Íþróttabandalag Akureyrar hefur gefið út hvaða tíu konur og tíu karlar urðu efst í kjörinu á íþróttafólki Akureyrar 2024. Þau sem sigruðu í fyrra, Baldvin Þór Magnússon (UFA) og Sandra María Jessen (Þór/KA) eru bæði á meðal tíu efstu. 

Kjöri íþróttafólks Akureyrar árið 2024 verður lýst í verðlaunahófi ÍBA sem fram fer í Hamraborgarsalnum í Hofi fimmtudaginn 23. janúar og hefst kl. 17:30. Þar verður hefðbundin dagskrá með viðurkenningum fyrir Íslandsmeistaratitla og landsliðsfólk, heiðursviðurkenningar, styrkveitingar úr Afrekssjóði Akureyrar og svo hápunkti hátíðarinnar þegar kjöri íþróttafólks Akureyrar verður lýst.

Á meðal tíu efstu kvenna eru tvær frá UFA, tvær frá KA, ein frá Akri, HFA, KA/Þór, SA, Þór og Þór/KA. Í tíu efstu sætunum hjá körlunum eru þrír frá KA, tveir frá UFA, tveir frá Þór, einn frá Akri SA og GA.

Tilnefningar til íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar 2024 - tíu efstu í stafrófsröð.

Konur

  • Anna María Alfreðsdóttir, Akri – bogfimi
  • Anna Þyrí Halldórsdóttir, KA/Þór – handknattleikur
  • Drífa Ríkharðsdóttir, KA – blak
  • Eva Wium Elíasdóttir, Þór – körfuknattleikur
  • Hafdís Sigurðardóttir, HFA – hjólreiðar
  • Julia Bonet Carreras, KA – blak
  • Sandra María Jessen, Þór/KA – knattspyrna
  • Shawlee Gaudreault, SA – íshokkí
  • Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, UFA – frjálsar íþróttir
  • Stefanía Daney Guðmundsdóttir, UFA – frjálsar íþróttir

Karlar

  • Alex Cambray Orrason, KA – lyftingar
  • Alfreð Birgisson, Akri – bogfimi
  • Alfreð Leó Svansson, Þór – rafíþróttir
  • Baldvin Þór Magnússon, UFA – frjálsar íþróttir
  • Gísli Marteinn Baldvinsson, KA – blak
  • Hans Viktor Guðmundsson, KA – knattspyrna
  • Jóhann Már Leifsson, SA – íshokkí
  • Matthías Örn Friðriksson, Þór – pílukast
  • Veigar Heiðarsson, GA – golf
  • Þorbergur Ingi Jónsson, UFA – frjálsar íþróttir