Fara í efni
Fréttir

Þór/KA semur við bandarískan markvörð

Stjórn Þórs/KA hefur samið við Jessicu Berlin (1999), bandarískan markvörð sem kemur til liðs við félagið frá Galway United á Írlandi þar sem hún hefur spilað undanfarin tvö tímabil. Greint er frá tíðindinum á vef Þórs/KA.

Jessica Berlin er frá Burk í Virginíuríki í Bandaríkjunum. Hún spilaði knattspyrnu fyrir háskólalið ríkisháskóla Norður-Karólínu (North Carolina State University) í fjögur ár (2017-2020) ásamt því að stunda þar nám í iðnaðarverkfræði og síðan í Seattle-háskóla í tvö ár (2021-2022) þar sem hún var í mastersnámi í viðskiptafræði (MBA). Eftir það spilaði hún sem atvinnumaður með írska liðinu Galway United í tvö ár (2023-2024) áður en hún samdi við Þór/KA.

„Við fögnum því að fá Jessicu í okkar raðir til að berjast um markmannsstöðuna í okkar liði,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. „Það eru ungar og efnilegar stelpur að koma upp í markinu hjá okkur í Þór/KA og fara fljótlega að banka á dyrnar en Jessica færir okkur reynslu sem við þurfum á að halda fyrir næsta tímabil. Við viljum hafa tvo sterka markverði til að halda alvöru standard á æfingum og búa til góða samkeppni um stöðuna. Jessica er öflugur markvörður sem hefur spilað sem atvinnumaður síðustu tvö árin svo hún þekkir umhverfið vel. Við væntum mikils af henni og hlökkum til að fá hana inn í okkar sterka hóp.“

Virkilega spennt að búa og spila á Íslandi

Jessica kveðst virkilega spennt að koma til Íslands og ganga til liðs við félagið til að spila í Bestu deildinni.

„Ég nýt þess mjög að ferðast og upplifa nýja menningarheima,“ segir hún spurð um ástæðu þess að hún ákvað að koma til Íslands til að spila. „Að geta spilað fótbolta í mismunandi löndum hefur verið mögnuð upplifun hingað til og ég er virkilega spennt að búa og keppa á Íslandi með Þór/KA. Ég hef heyrt margt gott um þessa deild og mig hefur alltaf langað til að heimsækja Ísland svo þetta er spennandi tækifæri fyrir mig. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ég hleypi heimdraganum til að spila í ókunnu landi svo ég hef ekki miklar áhyggjur. Auk þess veit ég að margir vinir og ættingja hafa nú þegar áhuga á að koma í heimsókn.“