Meint svik Samherja - „Ég verð ekki andvaka“
Forsvarsmenn Samherja voru sakaðir um sviksamlegt athæfi, m.a. gagnvart samstarfsfólki sínu í Namibíu, í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi.
Í þættinum var starfsemi Samherja í Kýpur rakin ásamt fyrri umfjöllun þáttarins um starfsemi Samherja í Namibíu. „Þetta er óhikað gert á sama hátt og þeir gerðu í seðlabankamálinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í Morgunblaðinu í dag um umfjöllun Kveiks. Hann segir umfjöllunina áframhaldandi aðför Ríkisútvarpsins að Samherja og starfsmönnum hans.
Höfundar skýrslu um rannsókn sem samstarfsmenn létu gera fullyrtu að Samherjamenn hafi dregið að sér fjármuni með því að ofgreiða félögum Samherja eða þeim tengdum fyrir þjónustu. „Þarna kemur ekkert fram sem ekki er hægt að hrekja. Verulegar skattgreiðslur voru greiddar til Íslands vegna skipa sem aldrei komu til Íslands,“ segir Þorsteinn Már í Morgublaðinu í dag. „Ég verð ekki andvaka yfir þessum þætti í nótt,“ sagði hann í gærkvöldi.