Fara í efni
Fréttir

Hvaða frambjóðanda kjósa krakkarnir?

Grunnskólabörnum landsins gefst kostur á að taka þátt í krakkakosningum í tengslum við forsetakosningarnar sem fram fara þann 1. júní. Umboðsmaður barna og KrakkaRúv standa að þessu sinni fyrir sínum sjöttu Krakkakosningum. Grunnskólar eða bekkir grunnskóla sem hafa áhuga á að taka þátt geta haft samband við skrifstofu umboðsmanns barna til að leita upplýsinga eða á vefsíðu embættisins.

Í tilkynningu frá skrifstofu umboðsmanns barna um þetta framtak segir meðal annars:

Með Krakkakosningum er börnum gefið tækifæri á að láta í ljós skoðanir sínar á frambjóðendum og er það í samræmi við það sem m.a. kemur fram í Barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um rétttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 þar sem segir að börn eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Niðurstöður kosninganna verða kynntar í upphafi kosningasjónvarps RUV að kvöldi kosningadags.

Krakkakosningar fóru fyrst fram í tengslum við forsetakosningarnar 2016 og verður fyrirkomulagið í ár með svipuðu sniði. Forsetaframbjóðendur fá tækifæri til að kynna sig með stuttu myndbandi sem sýnt verður í Krakkafréttum og gert aðgengilegt á vefsvæði KrakkaRÚV. Í framhaldinu verður börnum í grunnskólum landsins gefið tækifæri á að kjósa sinn uppáhalds forsetaframbjóðanda.

Þeir grunnskólar og/eða bekkir sem hafa áhuga á að taka þátt í Krakkakosningum eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns barna til að fá frekari upplýsingar. Einnig verður hægt að nálgast upplýsingar um kosningarnar á vefsíðu embættis umboðsmanns barna, barn.is.

„Krakkakosningar eru afar skemmtilegt verkefni og tækifæri fyrir skólana að kynna fyrir börnum fyrirkomulag kosninga og gaman að sjá að fjölmargir skólar sýna verkefninu áhuga. Þá hefur samstarfið við RUV alltaf verið afar ánægjulegt“, segir umboðsmaður barna, Salvör Nordal.