Fara í efni
Fréttir

Hátt í 7.000 skoðuðu fiskvinnslu Samherja

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú, voru heiðursgestir Fiskidagsins mikla í ár og skoðuðu fiskvinnsluhús Samherja á laugardaginn. Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri, til vinstri, og Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu fræddu forsetahjónin um starfsemina. Myndir af vef Samherja.

Áætlað er að hátt í 7.000 manns hafi skoðað fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík sem opnað var gestum og gangandi í tvær klukkustundir á laugardaginn, þegar fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli var haldinn í 20. skipti. Þar er sjávarútvegur í öndvegi og fyrirtækið notaði tækifæri til að sýna húsið, „sem sem hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir framúrskarandi tæknilausnir og góðan aðbúnað starfsfólks,“ segir á vef fyrirtækisins.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja tók á móti gestum í anddyri fiskvinnsluhússins.  

Fiskvinnsluhúsið var tekið í notkun í Covid heimsfaraldrinum, rétt áður en settar voru strangar sóttvarnarreglur og aðgengi því takmarkað verulega. Þess vegna var tækifærið gripið núna og fólki gefinn kostar að koma í heimsókn.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að afar ánægjulegt hafi verið að sýna húsið á þessum degi.

„Stemningin á Dalvík er einstök á Fiskideginum mikla, samstaða íbúanna er mikil og hlýhugur og gleði allsráðandi. Í mínum huga undirstrikar hátíðin með skýrum hætti að Dalvíkingar eru stoltir af því að sjávarútvegur er helsta atvinnugreinin, enda eru þeir sjómenn og fiskvinnslufólk í fremstu röð. Samherji er stór vinnuveitandi í sveitarfélaginu og við bjóðum gestum hátíðarinnar að smakka afurðir okkar með mikilli ánægju og stolti,“ segir Þorsteinn Már á vef fyrirtækisins.

„Ég þakka þeim sem sjá um framkvæmd hátíðarinnar kærlega fyrir einstaklega farsæla samvinnu í gegnum árin en fyrst og fremst er Fiskidagurinn mikli risastórt heimboð íbúanna og þökkum við Dalvíkingum fyrir óviðjafnanlegar móttökur,“ segir forstjóri Samherja.