Fara í efni
Fréttir

HA og sex fyrirtæki til liðs við Drift EA

Driftarar taka saman höndum þegar samningar um samstarf voru undirritaður á dögunum. Mynd: Drift EA.

Hið nýstofnaða frumkvöðla- og nýsköpunarfélag, Drift EA, hefur samið við Háskólann á Akureyri og sex fyrirtæki, „sex öflug fyrirtæki sem hafa mikla þekkingu og reynslu á sínu sviði,“ eins segir í tilkynningu – þetta eru Cowi, Deloitte, Efla, Enor, Geimstofan, og KPMG. Samstarfið snýst um nýsköpun á Norðurlandi.

Þessir sjö aðilar sem nú kallast Driftarar verða hluti af kjarnateymi Driftar EA, „en Driftarar mynda tengingar milli frumkvöðla, fyrirtækja og fræðanets. Markmið Driftara er að aðstoða og hjálpa frumkvöðlum að þróast og vaxa með því að móta og innleiða áætlanir í takt við þau verkefni sem tekist er á við hverju sinni að hverju verkefni. Þjónustan sem frumkvöðla vantar getur verið margþætt og markmið Driftar EA er að mæta þörfum þeirra sem best með því að bjóða fjölbreytta þjónustu sem miðar að því að veita“ meðal annars eftirfartalin atriði:

  • Ráðgjöf um fjármögnun og áætlanir
  • Aðstöðu og samfélag
  • Aðstoð við styrkumsóknir
  • Aðgengi að rannsóknar- og þróunar verkefnum
  • Þjálfun í kynningu og framkomu
  • Undirbúning fyrir fjárfestafundi
  • Aðgengi að viðtæku tengslaneti DriftarEA á landsvísu og utan landsteina
  • Persónulegar tengingar við fjárfesta og aðra hagaðila
  • Sérsniðna sérfræðiaðstoð

Öflug og fjölbreytt þekking

„Það hefur verið virkilega skemmtilegt að vinna síðustu mánuði með Háskólanum á Akureyri ásamt þeim fyrirtækjum sem taka þátt í þessu verðuga verkefni með okkur. Allir sjö aðilarnir hafa verið sérlega áhugasamir um að gerast Driftarar og hafa sýnt það í verki að það er mikill vilji til að vinna saman þó að fyrirtækin séu með einum eða öðrum hætti í beinni samkeppni,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdarstýra Driftar, í fréttatilkynningu.

„Fyrirtækin munu verða með starfsaðstöðu hjá Drift EA til að þjónusta frumkvöðla, nýsköpunarfyrirtæki eða verkefni sem verða valin í Drift EA  ásamt því að taka virkan þátt í að þróa verkefni með okkur, vera mentorar, halda fyrirlestra og annað sem tengist því að byggja upp þekkingu á svæðinu og efla nýsköpunarsamfélagið,“ segir hún.

„Driftara teymið mun með þessum hætti búa yfir öflugri og fjölbreyttri þekkingu á sviði nýsköpunar, tengslamyndunar, fræðanetsins, verkfræði, lögfræði, fjármála, áætlanagerðar, viðburðastjórnunar, grafískrar hönnunar, auglýsinga og markaðsfræða.“