Falska heimasíðan sögð listgjörningur
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sent samstarfsfólki sínu bréf og birt á heimasíðu fyrirtækisins þar sem hann segir frá því að einstaklingur hafi lýst á hendur sér ábyrgð á að hafa sett upp falska heimasíðu í nafni Samherja. Viðkomandi haldi því fram að um listgjörning hafi verið að ræða.
Við sögðum frá því fyrir um viku að sett hafi verið upp fölsk heimasíða í nafni fyrirtækisins, auk falsaðrar fréttarilkynningar í nafni þess.
Heimasíðan var sett upp í Bretlandi, í nafni og með myndmerki félagsins og fréttunum dreift þaðan, að því er fram kemur í bréfi forstjórans til samstarfsfólks.
„Við hjá Samherja getum ekki unað misnotkun af þessu tagi. Sú afstaða okkar hefur ekkert með list eða tjáningarfrelsi að gera heldur endurspeglar einungis skýlausan rétt okkar og skyldu til að vernda vörumerki félagsins. En það höfum við byggt upp af kostgæfni á undangengnum fjórum áratugum um allan heim,“ skrifar Þorsteinn Már í bréfinu. Hann segir enn fremur að í misnotkuninni haf ekki einungis falist listrænn tilgangur eins og höfundur haldi fram því auk þess hafi verið reynt að hafa fé af Samherja með því að fela auglýsingastofu birtingu á auglýsingaefni af sama tagi gegn greiðslu frá Samherja.
„Samherji mun gera kröfu um að umræddri heimasíðu verði lokað og þessi misnotkun verði ekki látin viðgangast,“ segir enn fremur í bréfinu.