Fara í efni
Fréttir

Færðu barnadeild SAk eina milljón króna

Áslaug Stefánsdóttir, aðaleigandi Stillingar, og Jóhann Rúnar Sigurðsson, stjórnarmaður Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri.

Stilling færði Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri eina milljón króna að gjöf á dögunum í tilefni þess að 20 ár eru um þessar mundir síðan fyrirtækið opnað verslun á Akureyri. Fénu skal verja til þess að kaupa ómtæki fyrir barnadeild sjúkrahússins.

„Með þessu vill félagið leggja sitt af mörkum til samfélagsins og þakka með því góðar viðtökur í áranna rás,“ segir í tilkynningu.

Á myndinni eru Áslaug Stefánsdóttir, aðaleigandi Stillingar og starfandi stjórnarformaður og Jóhann Rúnar Sigurðsson stjórnarmaður í Hollvinasamtökunum. Þess má geta að Jóhann var fyrsti verslunarstjóri Stillingar á sínum tíma

„Þess ber að geta að Hollvinasamtökin leggja samsvarandi upphæð á móti gjöf Stillingar til að brúa bilið á kaupunum á ómtækinu sem mun verða bylting á barnadeildinni og spara tíma til rannsókna og stytta bið, jafnvel bjarga lífi þar sem hægt verður að sjá fyrr hvað er að sjúklingnum,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. „Stjórn Hollvina þakkar Áslaugu starfandi stjórnarformanni Stillingar sem og öðrum er að þessu verkefni komu.“