Birta öll samskipti RÚV og Seðlabanka
Samherji birtir í dag á heimasíðu sinni tölvupóstsamskipti fréttamanns Ríkisútvarpsins og þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í aðdraganda húsleitar hjá Samherja 27. mars 2012. Seðlabankinn afhenti Samherja öll þessi gögn í byrjun desember en á sínum tíma neitaði útvarpsstjóri að afhenda Samherja tölvupóstana með vísan til verndar heimildamanns.
Þessi samskipti RÚV og Seðlabankans eru nú til rannsóknar hjá lögreglu vegna kæru Samherja á vormánuðum 2019 og eftir að forsætisráðherra vísaði málinu þangað með bréfi hinn 11. september 2019, að því er segir á heimasíðu Samherja.
„Þessir tölvupóstar staðfesta það sem okkur hefur lengi grunað og höfum sagt áður. Þáverandi stjórnendur Seðlabankans héldu frá okkur gögnum og töldu það ekki eftir sér að fara vísvitandi með rangt mál fyrir dómstólum. Við birtum þessa tölvupósta núna svo fólk geti séð svart á hvítu að samskipti Ríkisútvarpsins og Seðlabankans í aðdraganda húsleitarinnar voru mjög óeðlileg. Þessar stofnanir höfðu samantekin ráð um árás á Samherja á grundvelli ásakana sem starfsfólk þessara stofnana vissi að enginn fótur var fyrir, sem er auðvitað grafalvarlegt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja á heimasíðu fyrirtækisins.