„Ásakanir voru ekki á rökum reistar“
Skatturinn, sem fer með það hlutverk sem skattrannsóknarstjóri gegndi áður, hefur lokið ítarlegri úttekt á rekstri Samherja og tengdra félaga á tímabilinu 2012-2018. Niðurstaða úttektarinnar er að ekkert saknæmt hafi átt sér stað í rekstri félaga innan samstæðu Samherja. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Að frumkvæði Skattsins hefur Samherji gengist undir sátt og greiðir 230 milljónir króna auk vaxta vegna endurálagningar og sektar, eða innan við 1% af heildarskattskilum félaga innan samstæðunnar á umræddu tímabili. Samhliða þessu hefur embætti héraðssaksóknara fellt niður sakamálarannsókn á hendur félaginu og stjórnendum þess. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að sér sé létt vegna niðurstöðunnar,“ segir í Morgunblaðinu.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í samtali við Morgunblaðið að Skatturinn hafi staðfest að ekkert saknæmt hafi átt sér stað við skattaskil félaga innan samstæðunnar á umræddu tímabili. Í kjölfarið hafi Skatturinn boðið Samherja að gera sátt um málalok. Það sé alvanalegt í viðskiptum þar sem ágreiningur getur komið upp á milli fyrirtækja og skattayfirvalda um skattaskil. Hann segir að félagið hafi þó tekið ákvörðun um að gera ekki efnislegan ágreining við Skattinn um þau mál sem hér hafa verið nefnd, þó mögulega hefði mátt láta reyna á ábyrgð félagsins vegna skattaskila verktaka á erlendum skipum fyrir dómi.
„Hér voru starfsmenn, og í einhverjum tilvikum fyrrverandi starfsmenn, sem höfðu réttarstöðu sakbornings út af þessum málum. Það er íþyngjandi fyrir einstaklinga að sitja undir því,“ segir Þorsteinn Már. Sem fyrr segir hefur sú réttarstaða nú verið felld úr gildi. „Það hafa stór orð fallið í garð félagsins og starfsmanna þess og í rúm þrjú ár höfum við legið undir ásökunum um peningaþvætti og stórfelld skattaundanskot, sem voru sögð hlaupa á milljörðum króna. Ítarleg úttekt hefur þó leitt í ljós að þær ásakanir voru ekki á rökum reistar,“ segir hann.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.