Fara í efni
Fréttir

Afmælisbarnið gaf hálfa milljón króna

Aðalbjörn Pálsson, gjaldkeri Bergs, Jóhannes Bjarnason, formaður Hollvinasamtakanna, Rögnvaldur Snorrason, formaður Bergs og Ingibjörg Jóhannesdóttir, skrifstofustjóri Bergs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri voru færðar 500.000 krónur að gjöf í gær, í tilefni stórafmælis gefandans. Berg, félag stjórnenda á Norðurlandi eystra varð þá 80 ára og hafði stjórn félagsins ákveðið að styðja við gott málefni í nafni félagsmanna í stað þess að fagna afmælinu með hefðbundnum hætti.

Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður Hollvinasamtakanna, mætti á skrifstofu Bergs og tók við gjöfinni, þakklátur mjög, og lýsti því yfir – sem enginn efast um – að peningarnir komi í góðar þarfir. Eins og fram kom á Akureyri.net á dögunum færðu Hollvinsamtökin Sjúkrahúsinu á Akureyri tæki og tól fyrir hvorki meira né minna en 100 milljónir króna á síðasta starfsári.

Berg, félag stjórnenda á Norðurlandi eystra hét upphaflega Verkstjórafélag Akureyrar og nágrennis en nafninu var breytt 2012.