Aflaverðmæti Samherja og ÚA 11,7 milljarðar
Aflaverðmæti skipa Samherja og ÚA á nýliðnu ári var 11,7 milljarðar króna. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins. Framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segir að veiðarnar hafi heilt yfir gengið vel, „enda valinn maður í hverju rúmi og skipaflotinn góður og vel búinn.“
Bolfiskskip Samherja og ÚA veiddu samtals 34,3 þúsund tonn á nýliðnu ári og afli uppsjávarskipsins Vilhelms Þorsteinssonar var 42,5 þúsund tonn.
Verðmæti bolfisksaflans – þorsks, ýsu, ufsa og karfa – var 9,3 milljarðar króna og verðmæti uppsjávarfisks, sem Vilhelm Þorsteinsson kom með að landi, 2,4 milljarðar. Uppsjávarfiskur er loðna, síld, makríll og kolmunni
Afli og verðmæti bolfiskskipanna:
- Björgúlfur EA, 7.536 tonn og 2,1 milljarður króna.
- Kaldbakur EA, 7.264 tonn og tæpir tveir milljarðar króna.
- Björgvin EA, 6.461 tonn og 1,7 milljarðar króna.
- Harðbakur EA, 5.890 tonn og 1,5 milljarðar króna.
- Björg EA, 6.186 tonn og 1,7 milljarðar króna.
- Tvö önnur skip, Oddeyrin og Bergur veiddu samtals 1.010 tonn og var verðmætið samtals 349 milljónir króna.
Eins og fyrr segir var afli uppsjávarskipsins Vilhelms Þorsteinssonar EA 42.500 tonn og verðmætið 2,4 milljarðar. Vilhelm kom nýr til landsins á síðasta ári og hóf veiðar í lok apríl.
Þorskurinn vegur þungt
Langmest var veitt af þorski, þegar litið er á einstaka tegundir. Alls voru veidd 22,2 þúsund tonn af þorski á árinu. Þar á eftir kemur gullkarfi, 3,8 þúsund tonn. Í þriðja sæti er svo ýsa 3,3 þúsund tonn og þar á eftir ufsi, 3,2 þúsund tonn.
„Við þurftum á ýmsan hátt að hafa meira fyrir veiðunum á síðasta ári vegna óveðurs, sérstaklega í haust og vetur. Heilt yfir gengu veiðarnar þó vel, enda valinn maður í hverju rúmi og skipaflotinn góður og vel búinn,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. „Þegar verið er að gera upp aflatölur er ekki síður mikilvægt að líta á verðmætið. Markmiðið er alltaf að framleiða gæðaafurðir, meðferð aflans er einmitt stór þáttur í þeirri viðleitni og sjómenn eru vel með á nótunum í þeim efnum,“ segir Kristján.