Fara í efni
Fréttir

53.255 gestir í september og 1,1 milljón flettinga

Fleiri lásu Akureyri.net í nýliðnum september en áður á einum mánuði síðan fjölmiðillinn var endurvakinn í nóvember árið 2020.

  • Heimsóknir á vefinn í september voru að meðaltali 6.295 á dag.
  • „Einstakir gestir“ í september voru hvorki fleiri né færri en 53.255. Þá er hver IP tala (hver sími og tölva) sem fer inn á miðilinn einhvern tíma í mánuðinum aðeins talin einu sinni.
  • Íbúar Akureyrar eru um 19.000 þannig að þessar ótrúlegu tölur sýna svo ekki verður um villst að vefurinn er gríðarlega mikið lesinn af fólki sem búsett er annars staðar. Það er raunar í samræmi við viðbrögð sem undirritaður fær reglulega, bæði annars staðar af landinu og erlendis frá.
  • Flettingar í september voru alls rúmlega 1,1 milljón – síðunni var flett í 1.159.526 skipti.
  • Lestur vefsins hefur aukist jafnt og þétt, eins og glögglega sést í grafík sem birt er neðst í fréttinni, og aukningin var gríðarleg í september.
  • Í ágúst voru „einstakir gestir“ Akureyri.net 39.915, sem var það mesta fram að því, en fjölgaði sem sagt um 13.340 í september!
  • „Einstakir gestir“ í janúar á þessu ári voru 28.419 og hefur þeim því fjölgað um 24.836 á átta mánuðum. Fyrstu fimm daga þessa mánaðar voru „einstakir gestir“ Akureyri.net 14.118.

Þegar ferðalagið hófst, föstudaginn 13. nóvember árið 2020, var vitaskuld rennt nokkuð blint í sjóinn. Eftir að hafa starfað við blaðamennsku í fjóra áratugi hafði undirritaður þó trú á að fjölbreyttur og vandaður staðarmiðill ætti sér tilverurétt á Akureyri. Var því hvergi smeykur og reyndist sannspár.

Hvers kyns umfjöllun um nærumhverfi skiptir fólk eðlilega miklu máli og staðarmiðlar eru því afar mikilvægir. Þeir hafa tækifæri til að fjalla um fjölmargt sem landsmiðlar geta ekki sinnt. 

Nýtt efni birtist að sjálfsögðu á hverjum einasta degi ársins og fátt er Akureyri.net óviðkomandi; sagðar eru fréttir ýmsu tagi, fjallað um íþróttir, menningu og listir, fjölbreytt mannlíf, og birtir eru margvíslegir pistlar reglulega, Akureyri.net birtir aðsendar greinar um hvaðeina og minningargreinar á útfarardegi. Þá skipa ljósmyndir stóran sess á vefnum.

Að meðaltali birtust 7,7 greinar á dag á Akureyri.net frá 13. nóvember 2020 til 30. september 2022.

Nú þegar styttist í tveggja ára afmælið horfum við sem að vefnum stöndum stolt um öxl en þó einkum og sér í lagi bjartsýn fram á veginn, full tilhlökkunar.

Mér er þakklæti efst í huga.

  • Ég er dyggum lesendum þakklátur því án þeirra væri til lítils unnið.
  • Ég er einnig þakklátur þeim mörgu sem stutt hafa fjárhagslega við bakið á Akureyri.net með reglulegum framlögum síðustu misseri. Margt smátt gerir eitt stórt.
  • Þá ber vitaskuld að þakka auglýsendum það traust sem þeir hafa sýnt miðlinum. Þeim fjölgar hægt og bítandi vegna þess að auglýsing á Akureyri.net skilar árangri og slíkt er fljótt að fréttast. Tekjur af sölu auglýsinga skipta sköpum fyrir fjölmiðil eins og Akureyri.net og nýjustu tölur yfir fjölda lesenda og flettinga eru því mikið gleðiefni. 

Takk fyrir stórkostlegar viðtökur!

Áfram Akureyri og Akureyringar hvar sem þeir eru niðurkomnir.

Áfram Akureyri.net! 

Skapti Hallgrímsson
ritstjóri

Tölur fyrir árið 2022: fjöldi heimsókna á dag og „einstakra gesta“ í hverjum mánuði.
_ _ _

Flettingar á þessu ári, á mánuði og í hverri viku.
_ _ _

Heimsóknir á dag að meðaltali og fjöldi „einstakra gesta“ í hverjum mánuði frá byrjun.
_ _ _

Fjöldi greina frá upphafi, 13. nóvember 2020.